Stórleikur í körfunni í kvöld - Toppslagur nágrannaliðanna!
Það er sannarlega hægt að tala um stórleik í kvöld þegar Keflavík og Njarðvík mætast í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Óhætt er að segja að hér fari fram einn stærsti og mikilvægasti leikur deildarinnar því liðin eru bæði í efsta sæti deildarinnar með jafnmörg stig og hafa hvort um sig aðeins tapað einum leik í vetur. Leikurinn fer fram í Ljónagryfjunni og hefst kl. 19:15.
Spennan verður eflaust yfirþyrmandi í kvöld og baráttan gríðarleg. Leikurinn er einnig merkilegur fyrir þær sakir að hann er sá fyrsti þar sem Sigurður Ingimundarson stjórnar þeim grænu gegn liðinu sem hann stýrði í mörg ár og vann ótal titla með.
---
Mynd: Gaui Skúla og Siggi Ingimundar háðu saman marga hildina í liði Keflavíkur á árum áður. Nú mætast þeir í kvöld í leik leikjanna.