Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stórleikur á Keflavíkurvelli í kvöld
Sunnudagur 20. maí 2007 kl. 11:50

Stórleikur á Keflavíkurvelli í kvöld

Samkvæmt kortunum er vaxandi suðlæg átt og mega leikmenn og áhorfendur búast við rigningarleik á Keflavíkurvelli í kvöld þegar Bikarmeistarar Keflavíkur taka á móti Íslandsmeisturum FH í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 20:00 á Keflavíkurvelli og verður í beinni útsendingu hjá SÝN.

 

Liðin mættust tvívegis í deildarkeppninni í fyrra eins og lög gera ráð fyrir og höfðu þar sinn hvorn sigurinn. Liðin mættust fyrst í Kaplakrika þar sem FH hafði 2-1 sigur eftir að Keflvíkingar höfðu misnotað tvær vítaspyrnur í leiknum. Í öðrum leik liðanna sem fram fór á Keflavíkurvelli höfðu heimamenn 2-1 sigur með tveimur mörkum frá Baldri Sigurðssyni þar sem sigurmarkið kom á lokamínútu leiksins.

 

,,Seinni leikurinn gegn FH í fyrra á eftir að sitja lengi í minni mínu en hann verður ekkert ofarlega í huganum í kvöld, heldur bara verkefnið sem er fyrir höndum,” sagði Baldur Sigurðsson í samtali við Víkurfréttir en Baldur gerði út um FH-inga á Keflavíkurvelli í fyrra. ,,FH spila boltanum mikið eftir jörðinni og upp í gegnum miðjuna í fæturna á framherjunum svo ég tel að þessi leikur verði meira krefjandi heldur en KR leikurinn,” sagði Baldur.

 

Guðmundur Viðar Mete og Kenneth Gustafsson verða ekki í hópnum í kvöld en Baldur segir að Hallgrímur Jónasson og Nicolaj Jörgensen hafi leyst stöður miðvarða vel af hendi gegn KR. ,,Þeir eru báðir gríðarlega góðir og Nicolaj er mjög reyndur leikmaður og Hallgrímur les leikinn vel svo þeir gera saman góða hluti í miðvarðarstöðunum,” sagði Baldur en hvernig leggst það í hann að leikurinn fari hugsanlega fram í rigningu?

 

,,Ég held það henti hvorugu liðinu betur að leika í bleytunni en við erum kannski vanari rigningunni hér í Keflavík. Völlurinn er samt þéttur og góður svo það verður ekkert svað á vellinum ef það rignir,” sagði Baldur en ætlar hann að gera út af við FH öðru sinni? ,,Ég set kannski tvö mörk í kvöld, við sjáum til,” sagði Baldur hress en það mun mikið mæða á Mývetningnum á miðjunni í kvöld.

 

Keflavík-FH

Keflavíkurvöllur kl. 20:00 í kvöld

2. umferð Landsbankadeildarinnar

 

Aðrir leikir í Landsbankadeildinni í kvöld:

 

16:00 Fylkir-Valur

19:00 KR-Breiðablik

19:15 Fram-Víkingur

 

Kl. 14:00 í dag mætast Snæfell og Víðir Garði á Stykkishólmsvelli en það er fyrsti leikur Víðismanna í 3. deild karla.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024