Stórleikir í Domino's deild karla í kvöld
Bikarmeistararnir mæta í Ljónagryfjuna
Þeir gerast varla mikilvægari leikirnir en leikur Keflavíkur og Snæfells í kvöld þar sem bæði lið berjast um síðasta lausa sætið inn í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í körfubolta.
Með sigri tryggja Keflvíkingar sig inn í úrslitakeppnina en sigri Snæfell á liðið enn möguleika á 8. sætinu ef Keflvíkingar misstíga sig gegn feykisterkum Haukum í lokaumferðinni.
Það þyrfti að fara ansi langt aftur í sögubókum til að finna út hvenær Keflavík komst ekki í úrslitakeppnina síðast og alveg morgunljóst að leikmenn Keflavíkur hafa engan áhuga á því að fara snemma í sumarfrí í ár.
Frítt verður á leik Keflavíkur og Hauka og ætla Keflvíkingar auk þess að sýna leik Arsenal og Man Utd beint á risaskjá í félagsheimili sínu til að freista þess að fá fleira fólk í húsið.
Á sama tíma fer fram annar risaleikur á milli Njarðvíkur og Stjörnunnar en liðin berjast fyrir því að ná í heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Það má því búast við alvöru slag uppá líf og dauða bæði í TM höllinni og í Ljónagryfjunni í kvöld en báðir leikir hefjast kl. 19:15.