Stórlax tekinn traustataki
Njarðvíkingurinn Trausti Arngrímsson komst í meistaradeild laxveiðimanna þegar hann veiddi risalax í Iðunni í hádeginu í gær. Laxinn mældist 104 sm. Morgunvaktinni var að ljúka þegar Trausti ákvað að velja nýja flugu í blálokin og freista þess að negla einn fyrir hádegismat. Hann kom stönginni á milli fóta sér og náði í fluguboxið en þá verður hann var við að rifið er af afli í línuna. Trausti náði að rétta stöngina upp og bregðast við trölli hinum meginn á línunni.
„Ég tók fantalega á honum án þess að vita hvað fiskurinn væri stór. Viðureignin var ekki löng, líklega út af því hvað ég tók hressilega eða eigum við að segja traustataki, á stórlaxinum,“ sagði Trausti sem fékk aðstoð frá veiðifélaga sínum, Margeiri Vilhjálmssyni sem náði að háfa tröllið rétt um tíu mínútum eftir að laxinn kom á.
Þeir mældu fiskinn vandlega en hann var 104 sm. Alvöru krókudíll eins og risa hængar eru oft nefndir vegna útlits eftir sumarlegu í ánum.
Þetta mun vera næst stærsti lax sem veiðst hefur í sumar en breskur lávarður veiddi lax sem var einum sentimetra lengri í Laxá í Ásum snemma í sumar.
Trausti og Margeir var í holli með fleiri Suðurnesjamönnum. Holl sem fer nokkrum sinnum í Iðuna á hverju sumri. Túrinn gekk vel og fleiri fiskar, laxar og sjóbirtingar komu á land. Allir glaðir. Trausti í skýjunum með sinn stærsta fisk á ferlinum en kappinn er þaulvanur laxveiðigaur og hefur unnið við veiðileiðsögn í Ytri-Rangá í sumar.
Fallegur er hann - nýmældur og fékk frelsi skönmmu seinna. Myndir/Margeir Vilhjálmsson.