Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stórkostleg frammistaða Grindvíkinga í Borgarnesi
Miðvikudagur 21. mars 2007 kl. 00:06

Stórkostleg frammistaða Grindvíkinga í Borgarnesi

Grindvískir áhorfendur voru söngelskir í stúkunni í Borgarnesi í kvöld þegar þeir gulu tryggðu sér sæti í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Grindavík mætir grönnum sínum úr Njarðvík í undanúrslitum sem hefjast á laugardag. Grindvíkingar lögðu Skallagrím að velli í Borgarnesi 81-97 í mögnuðum oddaleik. Þetta var annar sigur Grindvíkinga í röð á þessum erfiða útivelli en ljóst er að Friðrik Ragnarsson og liðsmenn hans hafa fundið fjölina og eru til alls líklegir eftir sveiflukennt gengi í deildarkeppninni. Þeir Jonathan Griffin og Adam Darboe fóru á kostum í liði Grindavíkur í kvöld og gerðu samtals 50 stig fyrir Grindavík. Griffin með 28 og Darboe með 22.

 

Skallagrímur komst einu sinni yfir í leiknum í kvöld og það var með fyrstu körfu leiksins sem kom frá Darrell Flake. Eftir þá körfu var fyrri hálfleikurinn algjörlega í eigu Grindavíkur. Eftir rúman fjögurra mínútna leik var staðan skyndilega orðin 4-14 Grindavík í vil þar sem Páll Axel Vilbergsson gerði tvær þriggja stiga körfur í röð og gestirnir að leika hreint frábærlega. Leikhlutanum lauk svo í stöðunni 13-29 fyrir Grindavík og fólk trúði vart sínum eigin augum.

 

Heimamenn í Skallagrím náðu þó fínum köflum í 2. leikhluta en á köflum sáust tölur eins og 18-41 og 29-47 en þegar líða tók á 2. leikhluta vaknaði Darrell Flake til lífsins og fór að láta vel til sína taka undir körfunni. Páll Kristinsson hafði á honum góðar gætur til að byrja með en eftir því sem á leið óx Flake ásmegin. Dimitar Karadzovski setti niður góða þriggja stiga körfu þegar skammt var til hálfleiks og minnkaði muninní 36-50 og Darrell Flake bætti tveimur stigum við í næstu sókn og því gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 38-50 Grindavík í vil.

 

Grindvíkingar voru að leika hreint út sagt frábærlega í fyrri hálfleik og það virtist sem öll þeirra skot færu í netið sama hversu erfið þau voru. Veikan punkt var ekki að finna á Grindavík í fyrri hálfleik og komu leikmenn eins og Björn Brynjólfsson og Davíð Páll Hermannsson sterkir inn af bekknum.

 

Borgnesingar hófu síðari hálfleikinn af krafti og minnkuðu muninn strax í 43-52 með þriggja stiga körfu frá Pétri Má Sigurðssyni. Dimitar Karadzovski fékk sína fjórðu villu snemma í leikhlutanum og var mjög ósáttur við dómara leiksins fyrir vikið en Dimitar hélt beina leið á bekkinn til að fá ekki ótímabæra fimmtu villu. Mótlætið efldi heimamenn sem hófu að saxa verulega á forskot Grindavíkur og enn önnur þriggja stiga karfa frá Pétri minnkaði muninn í 50-55. Á meðan heimamenn söxuðu jafnt og þétt á forskot Grindavíkur leituðu þeir gulu ávallt til Jonathan Griffin eftir stigum en hann var ekki jafn sprækur í þriðja leikhluta og hann var í fyrri hálfleik. Skallagrímur náði mest að minnka muninn í eitt stig, 56-57 en lengra komust þeir ekki í kvöld. Þriðja leikhluta lauk í stöðunni 62-68 eftir að Jonathan Griffin hafði sett niður þýðingarmikla flautukörfu fyrir utan þriggja stiga línuna í lok leikhlutans.

 

Í fjórða leikhluta komust Skallagrímsmenn oft ansi nærri Grindvíkingum en þegar þeir voru farnir að anda ofan í hálsmálið á gestum sínum tóku þeir gulu á rás og náðu ávallt að auka muninn. Gríðarleg orka fór í það hjá Skallagrím að reyna jafna metin en Grindavík hélt fengnum hlut og hafði að lokum frækinn 81-97 sigur á Borgnesinum og eru þar með komnir í undanúrslit.

 

Um 100 manns fylgdu Grindvíkingum í Borgarnes í kvöld og studdu rækilega við bakið á sínum mönnum. Borgnesingar eru komnir í sumarfrí en öll umgjörð leiksins í kvöld sem og mætingin var frábær og hreint út sagt magnaður leikur í alla staði.

 

Stigahæstur í liði Skallagríms var Darrell Flake með 31 stig en eins og áður greinir var Jonathan Griffin með 28 stig í liði Grindavíkur. Njarðvík og Grindavík mætast í undanúrslitum og verður fyrsti leikur liðanna á laugardag.

 

Tölfræði leiksins

 

[email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024