Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Stoltur af því að vera úr Njarðvík
Ingvar Ívarð slandsmeistari með Stjörnunni, lék gegn stórliði Inter Milan í sumar í Evrópukeppninni og vann sér inn sæti í A-landsliði Íslands.
Laugardagur 25. október 2014 kl. 07:00

Stoltur af því að vera úr Njarðvík

Markvörðurinn Ingvar Jónsson átti nánast fullkomið sumar

- Kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins

Markvörðurinn Ingvar Jónsson var á dögunum kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins í knattspyrnu. Eflaust vita ekki margir að Ingvar ól manninn við Grundarveginn í Njarðvík, en knattspyrnulegt uppeldi hlaut hann hjá Frey Sverrissyni og fleiri góðum í knattspyrnudeild Njarðvíkur. Nú er Ingvar Íslandsmeistari með Stjörnunni, lék gegn stórliði Inter Milan í sumar í Evrópukeppninni og vann sér inn sæti í A-landsliði Íslands. Það er því óhætt að segja að sumarið hafi nánast verið fullkomið hjá Ingvari.

Þrír Suðurnesjamenn hafa hlotið sömu nafnbót áður. Keflvíkingurinn Guðmundur Steinarsson var kjörinn bestur árið 2008 og Gunnar Oddson frá Keflavík árið 1996, en hann lék þá með Leiftri. Markvörðurinn Bjarni Sigurðsson frá Keflavík var svo kjörinn bestur árið 1984, en aðeins tvisvar áður hafa markmenn hlotið nafnbótina, Hannes Halldórsson (2011) og Bjarni  árið (1984). Það er mikill heiður fyrir Ingvar að verða aðeins þriðji markvörðurinn til þess að vera valinn bestur á þessum 30 árum. „Ef markmaður gerir ein mistök þá er hann dæmdur út frá því. Ef sóknarmaður gerir 10 mistök þá man enginn eftir því ef hann skorar svo nokkur mörk,“ segir Ingvar. Hann segir engan leyndardóm liggja að baki árangri sem þessum. Hann hafi þó gefið sér meiri tíma til þess að æfa í sumar. „Ég hef frá unga aldri þurft að hafa mikið fyrir hlutunum og þurft að æfa mikið. Ég var ekki að vinna eins mikið í sumar og meira að einbeita mér bara að fótboltanum. Það hefur eflaust hjálpað mér helling. Ég æfði nánast eins og atvinnumaður í sumar,“ segir Ingvar sem starfar sem sjálfstæður einkaþjálfari.

Public deli
Public deli

Ingvar, sem er 25 ára gamall, hefur undanfarin fjögur ár leikið með Stjörnunni í Garðabæ við góðan orðstír. Hann hóf að æfa knattspyrnu sex ára gamall og lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki Njarðvíkur tíu árum síðar, þá aðeins 16 ára. „Sævar (Júlíusson) markmannsþjálfari hafði gríðarlega trú á mér og taldi að ég gæti náð langt. Hann pressaði á þjálfarann að gefa mér tækifæri. Hann á mikinn þátt í því hversu langt ég hef náð. Hann vann mikið með mig í yngri flokkum og einnig fyrstu árin í meistaraflokki. Hann er stoltur af mér í dag og fékk alveg gæsahúð þegar ég fékk verðlaunin frá KSÍ,“ segir Ingvar um fyrsta tækifærið.

„Fólk hefði haldið að ég væri hálf klikkaður ef ég hefði sett mér þessi markmið fyrir tímabilið“

„Þetta var nánast fullkomið tímabil fyrir mig og ég átti jafna og góða leiki í allt sumar. Ég gerði ekki mörg mistök og er gríðarlega stoltur af því að vinna þetta. Sérstaklega að vera kosinn af öllum mótherjum mínum. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér þetta fyrir tímabilið, að verða Íslandsmeistari og komst í fjórðu umferð í Evrópukeppninni. Fólk hefði haldið að ég væri hálf klikkaður ef ég hefði sett mér þessi markmið fyrir tímabilið.“ Ingvar lét sér það ekki nægja heldur vann hann sér sæti í A-landsliði Íslands. Eftir að hafa fagnað Íslandsmeistaratitlinum eftir sögufrægan leik gegn FH, var Ingvar nokkru síðar kominn upp í flugvél á leið til Lettlands með landsliðinu. „Ég var eiginlega ekki alveg búinn að átta mig á þessu öllu fyrr en ég kom heim úr landsliðsferðinni,“ segir hann.

Treystu á 18 ára gutta

Ingvar var 18 ára þegar Njarðvíkingar ákváðu að treysta á hann og láta honum eftir stöðu aðalmarkvarðar, en þá lék liðið í 1. deild. „Ég var alveg óskrifað blað á þeim tíma og er Njarðvíkingum mjög þakklátur að hafa gefið mér tækifæri.“ Ingvar viðurkennir að Keflvíkingar hafi borið í hann vígjurnar á sínum tíma en hann sá hag sínum betur borgið hjá uppeldisfélaginu. „Albert Sævarsson var þá markvörður hjá Njarðvík og Ómar Jóhanns hjá Keflavík. Ég sá að það yrði styttra í það að Albert legði hanskana á hilluna en Ómar,“ segir Ingvar léttur í bragði. Einnig taldi hann að réttast væri að byrja í neðri deildum og vinna sig upp í úrvalsdeild smá saman með reynslunni. „Hefði ég verið í stærri klúbb og ekki fengið sénsinn svona snemma þá hefði ég ekki verið búinn að ná jafn langt og ég hef gert í dag. Ég fékk t.d. tækifæri með unglingalandsliðinu þar sem ég var eini markvörðurinn á þeim aldri sem spilaði með meistaraflokki,“ segir Ingvar sem að baki leiki með U19 og U21 liði Íslands. Ingvar hefur þrátt fyrir unga aldur spilað sem aðalmarkvörður liða sinna í átta ár. Sú reynsla hefur reynst honum ansi dýrmæt. „Ég byrjaði að spila kannski nokkuð fyrr en margir aðrir en það er vonandi að ég eigi mín bestu ár eftir og verði bara betri.“

Ingvar á æskuslóðum ásamt Kristínu dóttur sinni. Húsið hægra megin á myndinni er einmitt æskuheimili Ingvars.

Dreymdi um að komast í stórt lið og verða Íslandsmeistari einn daginn

Þegar Njarðvíkingar féllu í 2. deild sýndu nokkur félög úr efstu deild áhuga á Ingvari. Nokkuð þekkt er orðin sagan af því að Bjarni Jóhannsson, þá þjálfari Stjörnunnar, hafi búið um 50 metrum frá Njarðtaksvellinum og verið tíður gestur á leikjum Njarðvíkinga. Hann vissi því upp á hár hvers Ingvar var megnugur. „Það var heillandi að fara í Stjörnuna vegna þess að Bjarni Jó vissi alveg hvað ég gæti og hafði séð mig margsinnis. Það var í raun eina liðið sem kom til greina. Einnig leist mér vel á markmannsþjálfara Stjörnunnar, Henrik Bödker, og höfum við náð frábærlega saman öll fjögur árin og hef ég bætt mig mikið undir hans stjórn.“ Þá strax var Ingvar hugsaður sem aðalmarkvörður liðsins sem var ungt að árum. „Mig dreymdi um að komast í stórt lið og verða Íslandsmeistari einn daginn, það er alveg mögnuð tilfinning að sá draumur hafi orðið að veruleika,“ segir Íslandsmeistarinn nýbakaði.

Helvíti töff að vera úr Njarðvík

„Það er varla annað hægt en að vera Stjörnumaður eftir þessi fjögur ár. Sérstaklega eftir að hafa hjálpað til við að skrifa sögu félagsins. Maður finnur að þetta eru langbestu stuðningsmenn landsins. Þrátt fyrir að FH-ingar hafi reynt að hringja út mannskap og boðið þeim bjór þá gekk það illa hjá þeim, maður var ekkert var við þá,“ segir markvörðurinn glettinn. Hann er þó alltaf grænn í gegn og stoltur af því að vera Njarðvíkingur.
„Ég held að það viti flestir að ég er Njarðvíkingur. Þegar það er skrifað um mig eða Óskar Hauksson í fjölmiðlum þá er alltaf talað um okkur sem Njarðvíkinga, það er helvíti töff. Maður er stoltur af því að vera úr Njarðvík.“ Ingvar fylgist með Njarðvíkurliðinu og segir að það hafi verið ánægjulegt að sjá þá bjarga sér frá falli í sumar. Helst vill hann þó sjá Njarðvíkinga í 1. deild, þar eigi þeir heima. Ingvar er alinn upp hjá Frey Sverrissyni ef svo má segja, en sá síðarnefndi var um árabil þjálfari yngri flokka hjá Njarðvík, þar sem hann náði frábærum árangri. Freyr fékk Ingvar og Alexander Magnússon, sem leikur með Grindavík, til þess að mæta á æfingu á sínum tíma. „Hann er klárlega besti yngri flokka þjálfari á landinu, þannig að maður fékk gott fótboltauppeldi,“ segir Ingvar um Frey Sverris.

Landsliðið og atvinnumennska næst á dagskrá?

Eins og fyrr segir hefur nánast allt gengið upp hjá Ingvari þetta sumarið. Hann segist vart vera kominn á jörðina eftir atburði undanfarinna vikna. Hann mun nú einbeita sér að landsliðinu sem hefur átt ævintýralegu gengi að fagna. „Markmiðið er að veita Hannesi (Halldórssyni) alvöru samkeppni, en hann hefur verið frábær í síðustu leikjum. Ég á vonandi nokkuð mörg ár eftir með liðinu en það er gaman að taka þátt í þessu og æfa með þessum strákum. Það að taka þátt í þessi ævintýri sem er í gangi er alveg ótrúlegt. Vonandi gerist það einn daginn að maður fái leik og geti þá sannað sig.“

Ingvar er á leið til Svíþjóðar þar sem hann mun æfa með úrvalsdeildarfélagi við toppaðstæður. Það er fyrst og fremst til þess að halda sér í formi fyrir landsliðið en þó er aldrei að vita nema atvinnumennskan sé handan við hornið. „Þessi klúbbur er í markmanns-hugleiðingum þannig að það er aldrei að vita hvað gerist. Þetta yrði frábær tími til þess að taka næsta stökk og fara í atvinnumennsku, en þá verður að bjóðast rétta tækifærið. Ef það kemur ekki upp í ár þá eru mjög spennandi tímabil framundan hjá Stjörnunni, að verja titilinn og spila í meistaradeildinni,“ segir Ingvar að lokum.