Stökkmótaröð í atrennulausum stökkum fyrir 30+
Næstkomandi laugardag, 21. maí á milli klukkan 13 og 16, fer fram keppni í atrennulausum stökkum fyrir 30 ára og eldri í Blue-höllinni. Þetta er annað mótið í stökkmótaröð sem Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag, og Ungmenna- og íþróttafélagið Smári komu í sameiningu á laggirnar.
Keppnisgreinar eru hástökk, langstökk og þrístökk án atrennu, þá er einnig keppt í hástökki með atrennu. Markmiðið með þessari stökkmótaröð er að fjölga mótum fyrir eldra íþróttafólk sem og að endurvekja vinsældir þessara keppnisgreina frjálsra íþrótta en þær voru mjög áberandi á árunum 1960–1990.
Nú þegar hafa verið sett á tvö mót og var hið fyrra hjá Ungmenna- og íþróttafélaginu Smára í Varmahlíð 23. apríl n.k. og hið síðara 21. maí hjá Keflavík íþrótta- og ungmennafélagi. Nánari upplýsingar um mótin má sjá á heimasíðu Frjálsíþróttasamband Íslands fri.is. Fyrir næsta vetur vonumst við til að mótunum fjölgi í a.m.k. fimm. Mótshaldarar vilja hvetja sem flesta til að taka þátt í skemmtilegri keppni.