Stofnun stuðningsmannafélags Reynis í farvatninu
Stofnfundur stuðningsmannafélags knattspyrnudeildar Reynis verður haldinn í félagsheimili Reynis við Stafnesveg, laugardaginn 24. mars kl. 17:00. Reynismenn taka þátt í 1. deildinni í knattspyrnu í sumar og þá er vissara að hafa góðan stuðning við bakið.
Stofnun félagsins á sér nokkurn aðdraganda og undirbúningur hefur staðið yfir frá s.l. áramótum. Félaginu er ætlað að efla áhuga og bæta innsýn fólks í það starf sem fer fram á vegum knattspyrnudeildar Reynis. Hér er ekki aðeins um að ræða félag sem mun styðja ksd. Reynis fjárhagslega heldur er hér einnig um að ræða félagsskap fólks sem hefur sameiginlegt áhugamál og það er að sjálfsögðu að vegur ksd. Reynis verði sem mestur í öllum aldurshópum og á öllum sviðum.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
Stuðningsmannafélagið stofnað, reglur fyrir félagið bornar upp til samþykktar og stjórn félagsins kjörin.
Styrktar- og samstarfssamningar við Sandgerðisbæ, Sparisjóðinn í Keflavík og fleiri aðila kynntir og undirritaðir.
Tillaga um félagsgjald og hvað það innifelur.
Kynning á aðstöðu félagsins, starfinu framundan og nýir leikmenn kynntir.
Veitingar verða í boði stuðningsmannafélagsins o.fl. aðila. Það er von stjórnar ksd. Reynis að allt Reynisfólk, 18 ára og eldra, sjái sér fært um að mæta og taka þátt í öflugu stuðnings- og uppbyggingarstarfi.
Stefnt er að því, í samvinnu við aðalstjórn ksf. Reynis, að koma upp sögu félagsins innan veggja félagsheimilisins. Margir hlutir hafa ekki fengið að njóta sín sem skyldi s.s. verðlaunagripir, gjafir, minjagripir, ljósmyndir, málverk og margt fleira. Í tengslum við þessa vinnu vill stjórn ksd. Reynis biðla til þeirra, er kunna að hafa muni sem þeir telja betur geymda í vörslu félagsins, að koma þeim í hendur félagsins.
VF-mynd/ Úr safni - Frá leik Reynis og Njarðvíkinga frá síðustu leiktíð.