Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stjörnuþjófnaður í Keflavík
Þröstur Jóhannsson liggur eftir á gólfinu en litlu munaði að hann næði að skora á síðustu sekúndu leiksins. VF-myndir/PállOrri.
Föstudagur 28. mars 2014 kl. 21:44

Stjörnuþjófnaður í Keflavík

Keflvíkingar glopruðu niður unnum leik gegn Stjörnunni í TM höllinni í Keflavík og töpuðu með einu stigi. Komnir í sumarfrí!

„Ég á bara ekki til orð. Þetta er með ólíkindum,“ sagði Gunnar aðstoðarþjálfari Keflvíkinga eftir ótrúlegt tap gegn Stjörnunni í þriðja leik liðanna í 8 liða úrslitum Domino's deildarinnar í körfu í T M höllinni í Keflavík í kvöld. Lokatölur urðu 93-94 og skoraði Marvin Valdimarsson þriggja stiga körfu þegar ein sekúnda var til leiksloka. Litlu munaði að Þresti Jóhannssyni tækist að lauma boltanum í körfuna á síðustu sekúndu en boltinn rúllaði á körfuhringnum.

Lokamínútur leiksins voru magnaðar og með ótrúlegri seiglu tókst Stjörnunni að minnka mun Keflvíkinga sem varð mestur 13 stig í seinni hálfleik. Þegar 1,10 mínútur voru til leiksloka var staðan 92-84 fyrir heimamenn sem leiddu allan leikinn og virtust ætla að tryggja sér sigur. Stjörnumenn skoruðu sjö stig á móti einu þessar 70 sekúndur sem lifðu af leiknum. Sjö sekúndum fyrir leikslok fékk Arnar Freyr Jónsson tvö víti þegar Stjörnumenn brutu á honum.Hann skoraði úr öðru vítinu. Marvin skoraði svo þennan magnaða þrist eftir að hafa fengið boltann í hendurnar frá Justin Shouse sem Keflvíkingar notuðu alla sína krafta til að passa en sá lávaxni lék heimamenn grátt í þessum leik, enn meir en í hinum tveimur leikjunum. Hann lauk leik með 37 stig.
 
Mikill fjöldi áhagenda Keflvíkinga studdi sína menn vel og fögnuðu vel síðustu mínúturnar þegar heimamenn virtust vera að klára dæmið. Sigur Stjörnunnar sem kom svo óvænt í blálokin var eins og köld vatnsgusa framan í stuðningsmenn Keflvíkinga. Þeir hreinlega trúðu ekki sínum eigin augum, frekar en leikmennirnir. Fögnuður Stjörnunnar var mikill og þeir börðust fram á síðustu sekúndu sem skilaði þeim þriðja sigrinum í röð gegn Keflvíkingum. Það er hægt að taka undir orð Gunnars aðstoðarþjálfara um að þetta hafi verið með ólíkindum. Það var einhvern veginn allt á móti þeim í þessari rimmu en einhvern tíma hefðu Keflvíkingar ekki misst svona leik niður í tap.

Eins og fyrr segir voru heimamenn í forystu allan leikinn. Þeir leiddu með 8 stigum í hálfleik, 52-44 en þá líkt og í lokin fengu þeir þrist í andlitið á síðustu sekúndu frá Justin Shouse. Sami munur var þegar lokaleikhlutinn hófst. Hann var hins vegar ekki nógu góður en þá skoruðu heimamenn einungis 16 stig gegn 25 stigum Stjörnunnar. Það var eins og það vantaði einhverja trú síðustu mínúturnar. Draugur úr hinum tveimur leikjunum gegn Stjörnunni birtist og hann náðu Keflvíkingar ekki að hrista af sér. Því fór sem fór.

Darrell Lewis skoraði 20 stig fyrir Keflvíkinga, Michael Craion 16 (11 fráköst), Magnús Þór Gunnarsson hitti vel og skilaði 16 og Guðmundur Jónsson 13, Þröstur Jóhannsson 9, Arnar Freyr 6 og Valur Valsson 5 stig.
Hjá Stjörnunni var Shouse með 37 og Marvin Valdimarsson 19, Dagur Jónsson 17 stig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þröstur gerði góða tilraun á síðustu sekúndunni þegar hann fékk boltann undir körfunni en boltinn dansaði á körfuhringnum. Sjáiði svipbrigði Teits og Stjörumanna.

Þröstur liggur eftir en Stjörnumenn fagna.

Valur Valsson „grætur“ ofan í gólfið.

Magnús Þór Gunnarsson átti erfitt með að sætta sig við tapið. Hér tekur hann þó í hönd Teits þjálfara Stjörnunnar.

Darrell Lewis lék vel fyrir Keflvíkinga en hann á erfitt með að trúa niðurstöðum leiksins.

Uppúr sauð í lokin, fjörið var mikið. Fannari mikið niðri fyrir.

Darrell skoraði tuttugu stig.

Arnar Freyr lenti á vítalínunni nokkrum sekúndum fyrir leikslok.

Brúnaþungir stuðningsmenn Keflvíkinga á lokamínútunum, m.a. fyrrum þjálfarar Keflavíkur, Sigurður Ingimundarson og Jón Halldór Eðvaldsson.

Fögnuður Stjörnumanna var mikill í lokin.