Stjörnuhrap í Keflavík
„Ég nenni eiginlega ekki að pæla í þessum leik. Það er erfiður leikur framundan við Snæfell og það er næsta verkefni í þessari erfiðu og jöfnu deild,“ sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnumanna sem steinlágu gegn Keflvíkingum í Iceland Express deildinni í körfubolta í Toyota höllinni í kvöld. Heimamenn unnu stórsigur, í lokin munaði 35 stigum, 118-83.
„Við komum bara ekki tilbúnir. Keflvíkingar settu í svaka gír í öðrum leikhluta og keyrðu á okkur til að fá áhorfendur og dómara á sitt band og við bara hættum,“ bætti njarðvíski þjálfarinn við.
Hans gamli andstæðingur, Guðjón Skúlason, fyrrverandi stórskytta úr Keflavík var öllu hressari eftir leikinn sem flestir áttu von á að yrði jafn enda liðin á sama stað fyrir leik kvöldsins í deildinni. „Þetta var mjög gott, vörnin frábær og sóknin góð. Við vorum ákveðnir í að hefna ósigursins frá því í haust og gerðum það svo sannarlega. Nú fáum við tvo daga í stórleik á mánudaginn gegn grönnum okkar í Njarðvík. Það er ljóst að við verðum að eiga mjög góðan leik því Njarðvíkingarnir eru jú með að flestra mati sterkasta liðið í deildinni núna. Nágrannaslagir við þá eru alltaf stórir leikir og þá spilar spennustigið stóran þátt. Ef við náum að komast yfir það, eigum við góða möguleika á að leggja þá grænu,“ sagði Guðjón.
Keflvíkingar voru yfir allan tímann í kvöld, leiddu með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta og þá var ekki margt sem benti til þess að heimamenn myndu valta yfir Stjörnumenn. Í öðrum leikhluta fóru Keflvíkingar á kostum, náðu upp góðri stemmningu og góðu forskoti sem var 13 stig í leikhlé.
Slíkur stigamunur hefur ekki nærri því alltaf dugað en Keflvíkingar voru rétt að byrja og þeir héldu áfram og héldu gestunum undir 50 stigum fram í lok þriðja leikhluta en þegar flautað var til fjórða var staðan 92-58. Þá var leiknum í raun lokið og síðasti partur leiksins var ekkert sérstakur en bæði lið skoruðu slatta og lokatölur urðu 118-83.
Nýi Kaninn hjá Keflavík, Draelon Burns, lék vel í sókn og vörn og setti 30 stig, stal mörgum boltum og lofar góðu. Gunnar Einarsson setti niður þrjá þrista í fjórum tilraunum í lokin og var með 60% nýtingu í þristum í leiknum. Hann skoraði 23 stig, Hörður Axel Vilhjálmsson var með 22 stig. Þessir þrír voru mest áberandi hjá Keflavík en allir leikmenn í hópnum komu inn á.
Justin Shouse skoraði 21 stig en var ekki jafn öflugur og oft áður og munar um minna hjá Stjörnunni. Hann og félagar hans áttu hreinlega við ofurefli að etja í kvöld nema rétt í byrjun og áttu ekkert svar við sterkum leik heimamanna sem voru í essinu sínu á heimavelli í kvöld.
En stóra stundin í körfunni á Suðurnesjum verður á mánudaginn kemur þegar Keflavík og Njarðvík mætast í Toyota höllinni í Keflavík.
Hægt er að skoða fleiri myndir úr leiknum í kvöld í ljósmyndsafni Víkurfrétta.
VF-myndir/ Hildur Björk Pálsdóttir