Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Stjarnan tryggði sér oddaleik með sigri í Ásgarði
Logi Gunnarsson og Justin Shouse hafa barist hatrammlega á vellinum í einvígi liðanna - mynd: karfan.is
Sunnudagur 29. mars 2015 kl. 20:24

Stjarnan tryggði sér oddaleik með sigri í Ásgarði

Einvígið er ekki fyrir hjartveika - synd að annað liðið þurfi að falla úr keppni

Stjarnan hélt lífi í epískri seríu sinni við Njarðvík með því að leggja liðið í 4. leik liðanna í 8 liða úrslitum Domino´s deildar karla í enn einum háspennuleiknum. Lokatölur urðu 96-94. 

Eins og í fyrstu þremur leikjum liðanna hingað var hnífjafnt á öllum tölum í fyrri hálfleik þar sem að liðin skiptust á að leiða. Ásgarður var þétt setinn og liðin dyggilega studd af áhorfendum sem komu jafn klárir í slaginn og leikmenn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Stefan Bonneau sýndi enn og aftur hversu magnaður körfuboltamaður hann er en hann setti niður litla 5 þrista í fyrri hálfleiknum og gekk til búningsherbergis með 20 stig í vasanaum sem telst nokkuð eðlileg frammistaða á þeim bænum. Hinum megin á vellinum var Jeremy Atkinson Njarðvíkingum erfiður undir körfunni en hans framlag í seríunni, 26 stig að meðaltali í leik, hefur fallið í skuggann af Bonneau en í fullri sanngirni sagt þá falla flest blóm undir sólinni í þann skugga. Atkinson var kominn með 16 stig í hálfleiknum sem að hjálpaði Stjörnunni að vera skrefinu á undan. Staðan í hálfleik 50-46 fyrir heimamenn.

Stjörnumenn tóku svo öll völd í byrjun þriðja leikhluta, náðu upp 14 stiga forskoti og Njarðvíkingar misstu hausinn eilítið við mótlætið. Dagur Kár Jónsson fór á kostum í liði Stjörnumanna á þessum kafla og hinn bakvörðurinn, Justin Shouse, studdi rækilega við bakið á honum.

En það verður ekki af Njarðvíkurliðinu tekið að í því býr frábær karakter og þeir komu til baka fyrir lok fjórðungsins. Með magnaðan varnarleik að vopni tókst þeim að minnka muninn niður í 2 stig fyrir 4. leikhluta, þrátt fyrir að Stefan Bonneau hafi þurft að yfirgefa völlinn eftir að Shouse hafði broti á honum í þriggja stiga skoti. Logi Gunnarsson kórónaði svo endurkomu Njarðvíkinga í leikhlutanum með þriggja stiga körfu. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 75-73.

Bonneau snéri aftur á völlinn í fjórða leikhuta en það sá hver maður að þar gekk ekki heill maður til skógar og þurfti hann að yfirgefa völlinn aftur, haltrandi. Snorri Hrafnkelsson og Maciej Baginski settu niður sitt hvora körfuna til að halda Njarðvíkingum í seilingarfjarlægð frá Stjörnunni en á sama tíma slaknaði á þeirri miklu ákefð sem Njarðvíkingar höfðu sýnt varnarmegin á vellinum og Stjarnan skoraði nánast í hverri sókn. 

Lokamínútur leiksins voru ekki fyrir hjartveika frekar en öll serían í heild sinni. Njarðvíkingar jöfnuðu metin í 91-91 með þriggja stiga skoti Ólafs Helga Jónssonar, hans fyrstu stigum í leiknum, en Stjarnan hélt áfram að svara og vera hálfu skrefi á undan.

Dramatíkinni var þó ekki lokið því að þegar 9 sekúndur voru eftir í stöðunni 96-94 fyrir heimamenn, sem að voru með boltann í stöðugum höndum Justin Shouse, gerði Logi Gunnarsson sér lítið fyrir og stal af honum knettinum, brunaði upp völlinn en sniðskot hans var varið glæsilega af Tómasi Þórði Hilmarssyni. Ótrúleg atburðarás!

Njarðvíkingar áttu færi á því að fá lokatækifæri til að jafna metin en Justin Shouse hefndi fyrir tapaðan bolta sinn í sókninni áður og stal boltanum úr innkasti Njarðvíkinga af Loga Gunnarssyni og sigurinn var heimamanna sem að tryggðu sér um leið oddaleik í Njarðvík á fimmtudagin kemur. 

Stigahæstir í liði Njarðvíkur voru Stefan Bonneau með 34 stig og 8 fráköst og Logi Gunnarsson með 22 stig. Þá áttur þeir Maciej Baginski (13 stig) og Snorri Hrafnkelsson (8 stig, 9fráköst) góðan leik.