Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stjarnan sló Keflavík út úr bikarnum
Linli Tu þurfti að hafa fyrir hlutunum í gær en vörn Stjörnunnar var vel skipulögð. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 17. júní 2023 kl. 11:47

Stjarnan sló Keflavík út úr bikarnum

Keflavík tók á móti Stjörnunni í átta liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu í gærkvöld. Aðeins eitt mark var skorað og það gerðu Stjörnukonur. Keflavík hefur því lokið leik í bikarkeppninni þetta árið.

Heilt yfir verður að telja sigur gestanna sanngjarnan en Stjörnukonur voru talsvert ákveðnari og oftast skrefi á undan Keflvíkingum sem gekk illa að ná upp spili og halda boltanum innan sinna raða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stjörnukonur gengu á lagið og pressa þeirra jókst jafnt og þétt. Á 24. mínútu dró svo til tíðinda þegar Stjarnan sótti, Keflavík náði að koma boltanum úr teignum en Stjarnan sendi fyrirgjöf fyrir markið þar sem Jasmín Erla Ingadóttir náði góðum skalla í bláhornið, óverjandi fyrir Vera Varis í marki Keflavíkur.

Alma Rós Magnúsdóttir við það að komast í færi en hún náði ekki valdi á knettinum og skot hennar fór framhjá marki Stjörnunnar.

Fátt markvert gerðist fram að hálfleik en Keflvíkingar færðu sig aðeins upp á skaftið í seinni hálfleik og fóru að sækja af meiri ákafa en áður. Yfirleitt voru það langar sendingar inn fyrir vörnina sem voru álitlegar en Stjarnan náði að stoppa mestallt spil Keflvíkinga. Sókn Keflavíkur var því oft á harðaspretti að elta þessar sendingar og það vantaði ekki mikið upp á að komast í alvöru dauðafæri en vörn Stjörnunnar var vel skipulögð og vandanum vaxin.

Að lokum rann tíminn út fyrir Keflavík og Stjarnan fer áfram í undanúrslit.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir á leiknum og er myndasafn neðst á síðunnni.

Keflavík - Stjarnan (0:1) | Mjólkurbikar kvenna 16. júní 2023