Sterkur varnarleikur skilaði sigri
Njarðvíkingar lentu ekki í teljandi vandræðum með ÍR þegar liðin mættust í Seljaskóla í kvöld. Þeir unnu afar öruggan sigur, 73-103, sem var aldrei í hættu.
Njarðvíkingar lögðu grunninn að sigri með grimmum varnarleik allt frá byrjun og náðu snemma góðu forskoti. Heimamenn fundu ekki taktinn í sókninni og var staðan 10-25 eftir fyrsta leikhluta og 28-46 í hálfleik.
Í þriðja leikhluta datt leikur gestanna eilítið niður þar sem vörnin var ekki eins þétt og ÍR gengu á lagið. Þá fór að bera meira á mistökum í sókn Njarðvíkur þar sem þeir voru að missa boltann allt of mikið. Staðan fyrir lokaleikhlutann var því 58-69.
Þá hrukku Njarðvíkingar loks í gang að nýju og rúlluðu yfir lánlausa Breiðhyltingana sem hafa því tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni. Njarðvíkingar hafa hins vegar unnið báða sína leiki og virðist Einar Árni, þjálfari, vera að gera góða hluti með liðið.
„Við vorum að spila fantavörn í fyrri hálfleik og það skilaði okkur mörgum auðveldum sóknum í kjölfarið,“ sagði Einar Árni í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn. „Við vorum síðan aðeins fljótfærir eftir hálfleik en náðum okkur aftur upp og kláruðum leikinn með stæl.“
Stóru mennirnir, Páll Kristinsson og Friðrik Stefánsson áttu góða leiki í kvöld ásamt því sem Troy Wiley stóð fyrir sínu í vörninni. Wiley fann sig ekki í sókninni en Einar sagðist fyllilega sáttur við frammistöðu leikmannsins. „Hann var óheppinn með sum skotin sín, en lék vel í vörninni. Það er sama hver skorar stigin.“
Brenton Birmingham var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins í kvöld en hann skoraði 30 stig og misnotaði einungis eitt skot þrátt fyrir að hafa einungis leikið 25 mínútur. Þessi sterki leikmaður virðist vera kominn í hörkuform eftir að hafa átt við langvinn meiðsli að etja.
Tölfræði leiksins
VF-mynd: Úr safni