Sterkari á endasprettinum
Góð vörn og mikil barátta skilaði Njarðvíkingum 10 stiga sigri í vesturbænum á sunnudagskvöld. Lokatölur leiksins voru 59-69 eftir jafnan og spennandi leik þar sem varnir beggja liða voru þéttar. Sigurinn var annar í röðinni hjá Njarðvíkingum í Iceland Express deildinni en þeir leika næst gegn Haukum í Ljónagryfjunni þann 27. október.
Heimamenn í KR hófu leikinn betur og komust í 8-1 þar sem Ashley Champion var atvkæðamikill. Njarðvíkingar jöfnuðu sig fljótt og komust yfir eftir 1. leikhluta 13-16.
KR hafði yfir í hálfleik 31-29 en Ashley Champion var þá kominn með 15 stig fyrir KR og Njarðvíkingum illviðráðanlegur. Egill Jónasson var KR-ingum erfiður í teignum en hann þurfti frá að víkja vegna villuvandræða, kominn með 3 villur í hálfleik. Egill varði alls 11 skot í leiknum og tók 8 fráköst.
Í seinni hálfleik fékk Halldór Karlsson það hlutverk að gæta Champion sem og hann gerði af stakri prýði en Champion gerði aðeins 4 stig í seinni hálfleik. Staðan að loknum 3. leikhluta var 47-49.
Njarðvíkingar voru sterkari á endasprettinum þar sem Guðmundur Jónsson og Jeb Ivey leiddu liðið en Jeb gerði 21 stig í leiknum og Guðmundur 17. Lokatölur leiksins voru eins og áður segir 59-69, Njarðvíkingum í vil og verður það að teljast nokkuð afrek að halda KR-ingum undir 60 stigum í DHL-höllinni.
Tölfræði leiksins
Staðan í deildinni
VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]