Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sterk Keflavíkurvörn lykillinn að fyrsta sigrinum
Laugardagur 19. apríl 2008 kl. 19:01

Sterk Keflavíkurvörn lykillinn að fyrsta sigrinum

Mikilvægur heimasigur náðist í höfn hjá Keflvíkingum í dag er þeir lögðu bikarmeistara Snæfells 81-79 í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik. Félagarnir Bobby Walker og Tommy Johnson drógu vagninn í sókninni ásamt Anthony Susnjara en hart var barist í Toyotahöllinni. Gestirnir úr Stykkishólmi áttu kost á því að stela sigrinum en lokaskotið frá Jóni Ólafi Jónssyni rataði ekki rétta leið og fögnuðu Keflvíkingar sigri. Annar leikur liðanna fer fram í Stykkishólmi kl. 20:00 á mánudag en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari.
 
Gunnari Einarssyni var enn heit höndin frá oddaleiknum gegn ÍR og setti góða þrista í upphafi leiks. Keflvíkingar höfðu frumkvæðið og þökk sé Justin Shouse tókst deildarmeisturunum ekki að stinga gesti sína af. Vörn Snæfellinga var furðuleg, oft og tíðum virtust þeir einfaldlega gefa Keflvíkingum opin þriggja stiga skot og lágu átta slík þegar blásið var til hálfleiks.
 
Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 25-22 fyrir Keflavík en fljótlega í öðrum leikhluta hóf Tommy Johnson að láta til sín taka. Hann kom að vanda sterkur inn af bekknum og leiddu Keflvíkingar í hálfleik 44-41. Arnar Freyr Jónsson meiddist líttilega á fingri í öðrum leikhluta en hann lét það ekki aftra sér og var fljótt kominn aftur inn á völlinn. Þá er það gleðiefni hjá Keflvíkingum að mínútufjöldi Anthony Susnjara verður stöðugt meiri og hann því að verða betri af hnémeiðslunum sem hann hlaut í seríunni gegn ÍR.
 
Síðari hálfleikur var mun betri en sá fyrri og var munurinn aldrei mikill á liðunum. Magnús Þór Gunnarsson fyrirliði Keflavíkur var að þefa uppi langskotin en þau vildu ekki detta hjá honum og var kappinn stigalaus þegar lokaflautið gall. Eitthvað sem er afar sjaldgæft á heimavelli Keflavíkur enda Magnús annáluð skotmaskína.
 
Justin Shouse gerði tvö síðustu stigin í þriðja leikhluta og kom gestunum í 64-65 og leiddu Hólmarar því fyrir fjórða leikhlutann eftir að hafa hangið í pilsfaldinum á Keflavík frá fyrstu mínútu.
 
Tommy Johnson kom sínum mönnum á bragðið í fjórða leikhluta og snemma setti hann niður tvo þrista sem breyttu stöðunni í 72-65 fyrir Keflavík. Þá var Bobby Walker að leika vel og bakverðir Hólmara í stökustu vandræðum með kappann.
 
Slobodan Subasic gerði 12 stig fyrir Snæfell í dag en öll komu þau úr þriggja stiga skotum. Flest hans stig voru gríðarstór og til þess fallin að halda Hólmurum inni í leiknum. Slobodan minnkaði muninn í 80-77 með þriggja stiga körfu og Justin Shouse minnkaði muninn í 80-79 með tveimur vítaskotum og 36 sekúndur til leiksloka.
 
Keflvíkingar héldu í næstu sókn sem lauk með þriggja stiga skoti frá Magnúsi sem var við frostmark í dag og áttu gestirnir síðustu sókn þegar 13 sekúndur voru til leiksloka. Jón Ólafur Jónsson fékk þá boltann óvenjufrír miðað við mikilvægi og stöðu mála í leiknum. Af hverju hann valdi að taka þriggja stiga skot þegar gestunum nægði tvö stig til sigurs verður mönnum hulin ráðgáta en skotið vildi ekki í netið. Tommy Johnson náði frákastinu og Hólmarar brutu um leið. Þá var innan við sekúnda til leiksloka. Tommy hélt á línuna, setti niður fyrra skotið og brenndi viljandi af því síðara til að fá tímann í gang enda of lítill tími fyrir gestina til að ná skoti á körfu Keflavíkur. Lokatölur því 81-79 fyrir Keflavík og deilarmeistararnir komnir í 1-0 í einvíginu.
 
„Sem betur fer erum við fimm inni á vellinum í einu og þurfum ekki alltaf að treysta á sama manninn til þess að skora svo við erum í góðum málum að eiga mig inni,“ sagði Magnús Þór Gunnarsson í samtali við Víkurfréttir eftir leik en hann lék í 27 mínútur í dag án þess að skora og brenndi af fimm þriggja stiga tilraunum sínum. Magnús var þó sáttur með varnarleikinn í dag.
 
„Um leið og við nennum að spila þessa vörn sem við gerðum í dag þá erum við bara hörkugóðir og við nennum að spila þessa vörn í tvo leiki til viðbótar,“ sagði Magnús vígreifur í leikslok.
 
Bobby Walker var valinn besti maður leiksins með 22 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar en þeir Sigurður Þorvaldsson og Justin Shouse gerðu báðir 18 stig hjá Snæfellingum. Þó gestirnir úr Hólminum hafi haft yfirburði í fráköstum í dag, 36 gegn 25, þá áttu þeir ekki nægilega góð svör við skyttum Keflavíkur sem fengu oft opin skot og á betri degi hjá Keflavík hvað nýtinguna varðar hefðu bikarmeistararnir verði heppnir að sleppa með 15 stiga ósigur.
 
 

VF-Mynd/ [email protected] – Bobby Walker átti góðan dag fyrir Keflavík í Toyotahöllinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024