Sterk byrjun Grindvíkinga
Grindvíkingar leiða einvígið gegn KR-ingum í undanúrslitum karla í Domino’s deildinni í körfubolta. Íslands- og deildarmeistarar Grindavíkur unnu 95-87 sigur í Röstinni þar sem góður fyrri hálfleikur heimamanna skipti sköpum.
Grindvíkingar leiddu 50-34 í hálfleik en þeir byrjuðu leikinn feikilega vel. Fyrsti leikhluti var algerlega eign Íslandsmeistarana en þeir héldu KR-ingum í aðeins 10 stigum í leikhlutanum, á meðan Íslandsmeistararnir sjálfir skoruðu 23 stig. Þeir Jóhann Árni Ólafsson og Aaron Broussard voru drjúgir í fyrri hálfleik og þá séstaklega Jóhann Árni sem var að hitta afar vel. Jóhann hafði skorað 16 stig þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik.
KR-ingar mættu grimmir til leiks þegar leikar hófust á ný. Þeir minnkuðu forskot heimamanna niður hægt og bítandi og þegar síðasti leikhluti var tæplega hálfnaður þá var munurinn orðinn þrjú stig,77-74. Þá rönkuðu Grindvíkingar við sér og juku muninn aftur í sex stig. Brynjar Björnsson skoraði svo þriggja stiga körfu og nú voru KR-ingar aðeins einu stigi frá Grindvíkingum. Lokamínútur leiksins voru nokkuð spennandi en Grindvíkingar reyndust sterkari að lokum og kláruðu leikinn vel. Lokatölur 95-87.
Þeir Jóhann Árni og Aaron Broussard voru sem áður segir bestir í liði Grindvíkinga en Jóhann skoraði 28 stig á meðan Broussard skilaði 31 stigum og 11 fráköstum í hús. Þorleifur Ólafsson skoraði 12 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson átti ágætis leik.
Gangur leiks: Grindavík-KR 95-87 (23-10, 27-24, 24-33, 21-20)
Tölfræði:
Grindavík: Aaron Broussard 31/11 fráköst/5 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 28/5 fráköst, Þorleifur Ólafsson 12, Ryan Pettinella 6/5 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 6/10 fráköst, Samuel Zeglinski 6/4 fráköst/6 stoðsendingar, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Jón Axel Guðmundsson 3, Hilmir Kristjánsson 0, Daníel G. Guðmundsson 0, Ólafur Ólafsson 0, Davíð Ingi Bustion 0.
KR: Brynjar Þór Björnsson 24/5 fráköst/5 stoðsendingar, Brandon Richardson 21/5 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Kristófer Acox 14/5 fráköst, Helgi Már Magnússon 12/8 fráköst, Darshawn McClellan 8/6 fráköst, Martin Hermannsson 6/4 fráköst, Finnur Atli Magnusson 2, Þorgeir Kristinn Blöndal 0, Högni Fjalarsson 0, Jón Orri Kristjánsson 0, Emil Þór Jóhannsson 0, Illugi Steingrímsson 0.