„Stelpurnar öfunda mig svolítið“
- Mikið framundan hjá Lilju Björk sem æfir nú fimleika í Bandaríkjunum
Fimleikakonan Lilja Björk Ólafsdóttir frá Keflavík var á dögunum valin í unglingalandslið Íslands sem tekur þátt í Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum. Mótið fer fram í Svíþjóð um páskana en Lilja segist spennt fyrir því verkefni. Auk þess er Evrópumót í Búlgaríu á næstunni svo það er nóg framundan hjá þessum unga Keflvíkingi sem fagnaði öðrum Íslandsmeistaratitli sínum fyrir skömmu.
Lilja, sem kjörin var fimleikamaður ársins 2013 í Reykjanesbæ, fagnaði á dögunum öðrum Íslandsmeistaratitli sínum á innan við ári, þegar hún sigraði á jafnvægisslá í frjálsum æfingum. Hún segist sjálf hafa átt að gera betur á tvíslá í mótinu en þar varð hún fyrir því óláni að detta. Hún er einmitt hvað sterkust í þessum tveimur greinum. Til þess að ná árangri sem þessum þarf að æfa vel en Lilja æfir fjóra tíma í senn fimm daga vikunar. Auk þess æfir hún ballet einu sinni í viku. Áður æfði hún fótbolta en hún varð að gefa boltann upp á bátinn, enda mikill tími sem fer í fimleikana hjá þessari efnilegu íþróttakonu. Hún verður að skipuleggja sig vel til þess að ná að sinna náminu vel en ljóst er að metnaðurinn er mikill. Lilja var á landsliðsæfingu fyrr í vikunni en hún segir þær æfingar vera töluvert erfiðari en gengur og gerist þar sem pressan sé töluverð á að sanna sig. Samkeppnin er hörð enda er samankomið í landsliðinu efnilegasta fimleikafólk landsins.
Strax farin að láta að sér kveða í Bandaríkjunum
Lilja fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna í desember á síðasta ári. Hún hefur strax látið að sér kveða í fimleikunum þar og sigraði tvær greinar á móti þar sem besta fimleikafólk Vestur Virginíu-fylkis keppti, en þar býr Lilja. „Það hefur gengið mjög vel. Ég vann á slá og gólfi í mínum aldurflokki,“ segir Lilja en henni líkar lífið í Bandaríkjunum og segir fimleikana þar vera í öðrum gæðaflokki. „Stelpurnar heima í Keflavík öfunda mig svolítið. Í Bandaríkjunum eru æfingar talsvert strangari en á Íslandi og aginn meiri en það er viss draumur að fá að stunda fimleika í Bandaríkjunum,“ segir Lilja en sterk hefð er fyrir íþróttinni vestanhafs. Til þess að vera gjaldgeng í landsliðið þarf Lilja að taka þátt í mótum hérlendis a.m.k. einu sinni á ári líkt og hún gerði nú á dögunum. Hún segist ekki vera viss um að hún geri slíkt hið sama á næsta ári þar sem hún vill fremur æfa vel úti til þess að aðlagast betur að fullorðinsflokk, en það þykir talsvert stökk upp á við. Lilja verður 15 ára á þessu ári en hún fer í fullorðinsflokk á næsta ári.
Lilja (þriðja frá vinstri) ásamt liði sínu í Bandaríkjunum.
Nokkrar laufléttar spurningar að lokum
Hvað er eftirlætismaturinn þinn?
Íslenska Lambalærið.
Áttu þér einhverja fyrirmynd í fimleikunum?
Allar stelpurnar í ameríska landsliðinu.
Erfiðasta æfing sem þú gerir?
Erfiðasta þrekæfingin er örugglega sú að klifra kaðal án fóta, en erfiðasta æfingin sem ég get gert er örugglega flikk flikk án handa á slá og 1 1/2 skrúfa í framheljarstökk á gólfi.
Hvað er skemmtilegast við það að æfa fimleika?
Það skemmtilegasta við að æfa fimleika er að læra nýjar æfingar.
Áttu þér einhver framtíðarmarkmið?
Að komast í landslið fullorðinna.
Lilja hafnaði í fyrsta sæti á sínu fyrsta móti í Bandaríkjunum.