Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 16. maí 2001 kl. 13:12

Steinþór Geirdal bikarmeistari einstaklinga í keilu

Steinþór Geirdal, ungur Keflvíkingur er að gera það mjög gott í íþrótt sinni, keilu. Hann varð bikarmeistari í einstaklingskeppni fyrir stuttu og er í landsliðinu í keilu.
Steinþór nældi í Bikarmeistartitilinn í apríl og varð í þriðja sæti á Íslandsmóti einstaklinga. Steinþór varð Íslandsmeistari í fyrra en varð að láta af titlinum eftir tvöfaldan bráðabana í undanúrslitum. Steinþór fór ásamt landsliðinu í keilu á norðurlandamót í febrúar. Liðið náði þar þriðja sæti auk þess sem Steinþór náði 6. sæti í parakeppni með Rögnu Matthíasdóttur. Hann náði einnig þeim merka árangri að komast í úrslit í einstaklingskeppninni, fyrstur Íslendinga. Á mótinu fékk Steinþór tækifæri til að keppa við marga af bestu keiluspilurum heimsins.
„ Það sem ber hæst í sumar er Evrópumótið í keilu sem fram fer í Álaborg í Danmörku 12.- 24. júní“, segir Steinþór en þangað fer hann með landliðinu. Sem stendur er hann utan liða en hann keppti með a-liði KR í vetur og varð með þeim deildarmeistari og meistari meistaranna. Keppnistímabilinu er nú lokið en það hefst aftur í september. Steinþór segir það mjög mikilvægt að detta ekki úr æfingu í sumar og sækir því æfingar til Reykjavíkur því aðstaða hér er ekki lengur til staðar. „ Það er mikilvægt að detta ekki úr æfingu á milli keppnistímabila því erlendis eru stórmót allt árið og við verðum að vera stöðugt í góðu formi til að geta veitt þeim einhverja samkeppni. Það er nokkuð merkilegt hvað íslendingar hafa náð góðum árangri þrátt fyrir að ekki skuli vera betur búið að þessari íþróttagrein er gert er. Eins og er veit ég þó ekki með hvaða liði ég kem til með að keppa á næsta keppnistímabili. Sem betur fer á ég kost á að komast í mörg lið því þrátt fyrir að aðstæður séu erfiðar og ekkert sé gert fyrir þessa íþróttagrein hér í bæ, er ég ákveðinn í að reyna að halda áfram a.m.k. eitthvað lengur“, segir Steinþór.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024