Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Steinar: Get valið mitt sterkasta lið
Föstudagur 23. maí 2008 kl. 13:28

Steinar: Get valið mitt sterkasta lið

Fyrir tíu árum var Óskar Ingimundarson þjálfari Víðis þegar liðið hafði sigur í 2. deild karla í knattspyrnu. Nú er yngri bróðir hans Steinar við stjórnartaumana í Garðinum og stýrir Víðismönnum í grannaslagnum gegn Reyni sem hefst kl. 20:00 á Sparisjóðsvellinum í Sandgerði í kvöld. Steinar sagði í samtali við Víkurfréttir að hann hefði ekki lagst inn á kontór hjá Óskari bróður sínum til þess að fá að ljósrita sigurformúluna á Reyni heldur sagði hann aðalatriðið að menn myndu mæta klárir í leikinn í kvöld.
 
,,Ég spilaði nú sjálfur einhverja leiki á móti Reyni og man að ég var með þegar við töpuðum 3-0 gegn þeim í Sandgerði árið 1996,” sagði Steinar í samtali við Víkurfréttir. ,,Þetta er spurning um dagsformið hjá strákunum og hvort menn mæti tilbúnir til leiks,” sagði Steinar sem hefur heyrt af töluverðum áhuga fyrir leik kvöldsins.
 
,,Við áttum meira inni gegn Hetti í fyrsta leiknum en við erum að koma upp í 2. deild eftir nokkurra ára fjarveru og í deildinni er annað tempó en í 3. deild og menn að þreifa fyrir sér hvernig deildin sé. Fyrstu umferðirnar hjá okkur verða erfiðar þar sem við mætum flestum liðunum sem spáð hefur verið í toppsætin,” sagði Steinar en honum hefur enn ekki gefist færi á að sjá til Reynismanna.
 
,,Ég veit samt að þetta eru hörkufótboltastrákar og Bryngeir er góður vinur minn svo ég veit að Sandgerðingar mæta klárir. Þeir eru að koma úr 1. deildinni og verða því sterkir í sumar,” sagði Steinar og gerir sér fulla grein fyrir því að Reynismenn fari í leikinn með augastað á stigunum þremur.
 
,,Ég vonast eftir hörkuleik í kvöld og að menn skemmti sér við þetta. Það eru allir heilir hjá okkur eða að verða heilir svo ég get valið mitt sterkasta lið í kvöld en þetta snýst samt meira um að menn verði skynsamir og fari ekki í neina vitleysu,” sagði Steinar Ingimundarson þjálfari Víðis í samtali við Víkurfréttir.
 
Reynir-Víðir
2. deild karla kl. 20:00 í kvöld
Sparisjóðsvöllurinn í Sandgerði
Hægt er að nálgast leikskrá fyrir leikinn í kvöld á www.reynir.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024