„Stefnum hærra en okkur var spáð“
Keflavíkurkonur leika sinn fyrsta leik í Landsbankadeildinni í kvöld og mæta þá nýliðum Fylkis í Árbænum kl. 19:15. Ásdís Þorgilsdóttir hætti nýverið sem þjálfari Keflavíkurliðsins og við liðinu tóku Gunnlaugur Kárason og honum til að stoðar verður Ágústa Líndal.
„Maður hugsar sig vel um áður en maður tekur við liði viku fyrir mót en ég hef trú á þessum stelpum,“ sagði Gunnlaugur Kárason, nýráðinn þjálfari Keflavíkurkvenna, í samtali við Víkurfréttir.
„Þetta verður kannski einstefna tveggja til þriggja liða í sumar þegar horft er á mannskapinn hjá Val og Breiðablik,“ sagði Gunnlaugur en Keflavík var spáð 5. sæti í deildinni. „Ef við lítum raunsætt á málin þá eru tvö efstu sætin í deildinni nokkuð fjarlægur möguleiki en við eigum góða möguleika á því að stríða toppliðunum og við stefnum hærra en sætið sem okkur var spáð,“ sagði Gunnlaugur.
Eins og áður greinir eru Fylkiskonur nýliðar í deildinni og hafa ekki enn fengið sér erlendan leikmann. „Fylkir hefur bætt við sig íslenskum stelpum fyrir leiktíðina og hafa verið að æfa vel fyrir mótið, þetta verður sennilega hörkuleikur í kvöld,“ sagði Gunnlaugur að lokum.
VF-mynd/JBO: Frá leik Keflavíkur og KR á síðustu leiktíð