„Stefnum á fjögur efstu sætin“
Stefán Gíslason er á meðal lykilmanna í norska úrvalsdeildarliðinu Lyn en Stefán lék með Keflvíkingum áður en hann hélt til Noregs.
Lyn mættu Rosenborg á sunnudag og urðu þar að sætta sig við 2-1 tap en Lyn komst í 1-0 og voru sterkari aðilinn í upphafi leiks. Rosenborg nýtti vel þau fáu færi sem þeir fengu og höfðu sigur 2-1. „Sigurmark þeirra var algert draumamark af löngu færi,“ sagði Stefán í samtali við Víkurfréttir. „Markmiðið hjá okkur er sett á fjögur efstu sætin og það er raunhæft markmið,“ sagði Stefán en þegar níu umferðum er lokið í Noregi er Lyn í 8. sæti með 11 stig.
„Deildin er mjög jöfn, örugglega jafnari en í fyrra eða í það minnst mjög svipuð. Það er mikið eftir og toppliðin Lilleström og Brann eiga eftir að tapa leikjum,“ sagði Stefán en Grindvíkingurinn Ólafur Örn Bjarnason leikur með Brann. Stefán er fyrst og fremst varnarsinnaður miðjumaður og kann vel við sig í því hlutverki hjá Lyn. „Það er ekkert bannmerki við því að ég taki þátt í sókninni en ég kann best við mig svona aftar á vellinum,“ sagði Stefán en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við Lyn.
Aðspurður um sína gömlu félaga í Keflavík sagði Stefán að honum litist bara vel á nýhafna leiktíð Keflavíkur. „Þeir töpuðu í Eyjum en þetta var góður sigur hjá þeim gegn Víkingi. Liðið virðist hafa verið að styrkja sig mikið og eru til alls líklegir í sumar,“ sagði Stefán sem fær bráðlega 10 daga frí frá norsku úrvalsdeildinni og ætlar að verja hluta af því með fyrrum liðsfélaga sínum, Harladi Guðmundssyni, hjá Keflavíkurliðinu. „Aaelsund virka sterkir um þessar mundir en það er ekki sjálfgefið fyrir þá að fara beint aftur upp,“ sagði Stefán en Haraldur leikur með Aalesund. „Miðað við hvernig þeir eru að spila þá eiga þeir heima í úrvalsdeildinni,“ sagði Stefán að lokum.
Myndir: www.lyn.no