Stefnir út fyrir landsteinana
Sigurjón Rúnarsson, fyrirliði knattspyrnuliðs Grindavíkur í meistaraflokki karla, hefur átt mjög gott tímabil með liði sínu í ár. Grindavík hóf Íslandsmótið á góðum sigri á ÍBV en tapaði næstu tveimur leikjum þar á eftir. Grindavík hefur unnið síðustu tvo leiki og er nú meðal efstu liða í deildinni.
Sigurjón var við æfingar í síðustu viku með úrtakshópi U21 landsliðs Íslands en hann lék tvo vináttulandsleiki með U19 á móti Albaníu í september 2018. Þá æfði hann einnig með hópnum í mánuð fyrir undankeppni EM sem var haldin í Tyrklandi í nóvember sama ár en fékk ekki kallið í lokahópinn. „Sem voru svolítið vonbrigði,“ sagði Sigurjón í viðtali við Víkurfréttir.
Gulur í gegn
– Þú og þið Grindvíkingar hafið farið ágætlega af stað í Lengjudeildinni – síðasta tímabil var auðvitað vonbrigði fyrir ykkur. Hverjar eru væntingarnar í ár?
„Stefnan er auðvitað að fara upp, eins og hjá flestum liðum í þessari deild, en miðað við hópinn sem við erum með eigum við að gera tilkall til þess.
Ég er fæddur og uppalinn Grindvíkingur, hef bara verið í Grindavík og aldrei spilað annars staðar. Ég kom inn í meistaraflokkshópinn 2017 og lék minn fyrsta leik í Íslandsmóti í síðasta leik Grindavíkur á tímabilinu í næstefstu deild. Þarna fékk ég að finna smjörþefinn af því að vera í hóp. Ég var á sautjánda ári og fyrsti leikmaðurinn sem er fæddur á þessari öld til að spila fyrir meistaraflokk Grindavíkur. Tímabilið þar á eftir datt ég alveg inn og fékk ég átta leiki í efstu deild.“
– Hvert stefnir þú sjálfur?
„Stefnan er náttúrlega að komast eitthvað út fyrir landsteinana – til Noregs, Svíþjóðar eða eitthvað svoleiðis. Ég hef svo sem ekki fengið neinar fyrirspurnir þess efnis, ekkert af neinu viti allavega. Það er bara að spila vel í sumar og sjá hvað gerist.“
Sigurjón vinnur með fótboltanum á knattspyrnuvellinum í Grindavík og segir það vera sniðið í kringum fótboltann. Hann lauk við stúdentinn frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja á síðasta ári og tók sér ársfrí frá námi en stefnir á að fara í skóla eftir sumarið.
„Ég hef verið að skoða að fara í málarann, pabbi er málari og ég hef aðeins verið að vinna hjá honum. Mér líst bara þokkalega vel á það. Það yrði bara tveggja ára nám, mest verklegt, því ég er auðvitað búinn með megnið af skólanum. Svo sjáum við bara eftir tímabilið, hvort eitthvað gerist.“
Er í fjarsambandi
Sigurjón er í sambandi með Maríu Sól Jakobsdóttir sem spilar með Stjörnunni í Pepsi Max-deild kvenna.
„Við kynntumst þegar hún lék með Grindavík tímabilið 2017 og höfum verið par síðan. Við búum ekki saman, erum svona til skiptis heima hjá foreldrum hennar og mínum. Svo hefur hún verið á fótboltastyrk hjá University of Miami síðustu tvö ár þannig að þetta er búið að vera svolítið fjarsamband síðan þá,“ segir Sigurjón að lokum.