Stefnir á pall fyrir landsliðið
„Í lyftingum sér maður mjög oft bætingar,“ segir Guðmundur Juanito Ólafsson
Guðmundur Juanito Ólafsson byrjaði að æfa ólympískar lyftingar hjá UMFN fyrir einu og hálfu ári síðan og er strax kominn í landslið 20 ára og yngri. Hann hafnaði í 4. sæti á Norðurlandamótinu sem haldið var í Hafnarfirði nýlega en þar lyfti hann 103 kg í snörun og 132 kg í jafnhendingu. Guðmundur stefnir á að komast á pall fyrir landsliðið.
Guðmundur er frá Reykjanesbæ og á ættir að rekja til Filippseyja. Hann gerði garðinn frægan með liði Holtaskóla í Skólahreysti en hans lið sigraði þrjú ár í röð, 2011, 2012 og 2013. Hann æfði fótbolta í mörg ár með Keflavík en ákvað svo að tími væri kominn til að prófa eitthvað nýtt. „Í lyftingum er maður mjög oft að sjá bætingar. Ég fór í lyftingarnar út af crossfit því mig langaði að verða betri í þeim lyftum sem eru þar. Svo er líka bara svo góður félagsskapur í þessu,“ segir Guðmundur.
Hver er uppáhalds greinin þín í lyftingunum?
Mín uppáhalds grein er „clean and jerk“ eða jafnhending.
Áttu þér einhverjar fyrirmyndir í íþróttinni?
Fyrirmyndirnar mínar eru auðvitað bara þeir sem eru á toppnum í þessari íþrótt.
Hver eru þín markmið?
Skammtímamarkmið mín eru að bæta mig í þeim lyftum sem keppt er í og langtímamarkið mitt er að lenda á verðlaunapalli fyrir landsliðið.
Hvenær er næsta mót?
Næsta mót sem ég mun keppa á er í desember og það er jólamótið í ólympískum lyftingum.