Stefnir á heimsmeistaramót á árinu
Ástrós Brynjarsdóttir íþróttakona Reykjanesbæjar í viðtali
Ástrós Brynjarsdóttir er orðin þekkt nafn í bardagaíþróttum enda hefur hún verið valin taekwondokona ársins tvisvar og íþróttakona Reykjanesbæjar undanfarin þrjú ár. Ástrós var ákaflega sigursæl á árinu, vann fimm Íslandsmeistaratitla, tíu gullverðlauna, tvö silfur verðlaun og þrjú bronsverðlaun. Ástrós varð fyrsta íslenska konan í ár til að verða Norðurlandameistari í tækni og eini Íslendingurinn sem hefur orðið Norðurlandameistari í bæði bardaga og tækni.
Hvað varst þú persónulega ánægðust með á árinu?
Ég var ánægðust með þýska mótið (German open) sem er A-mót. Í mínum flokki voru 45 keppendur og margir af þeim bestu í Evrópu. Á því móti endaði ég í 3. sæti sem ég er mjög ánægð með.
Hvaða íþróttamaður frá Suðurnesjum var að standa sig best á árinu að þínu mati?
Að mínu mati fannst mér Ágúst Kristinn Eðvarðsson standa sig best. Hann bætti sig mikið og það sem stóð upp úr hjá honum var Evrópumótið í bardaga, þar sem hann nældi sér í bronsverðlaun.
Íþróttaárið 2015 á Suðurnesjum var…….ágætt að mínu mati. Hjá okkur í taekwondo deildinni var árið glæsilegt. Við erum með mikið af flottum keppendum sem eru að keppa fyrir hönd Íslands á erlendum mótum, iðkendum hefur fjölgað og fullt af fólki er að gera góða hluti.
Hvað ætlar þú að afreka á nýju ári?
Ég ætla að reyna að keppa á sem flestum erlendum stórmótum og stefni á að komast á heimsmeistaramótið sem er næsta haust.
Hvað lærðir þú á árinu sem var að líða?
Stundum nær maður ekki markmiðum sínum þó svo að maður hafi lagt allt undir, þá þýðir ekki að gefast upp og maður gerir bara betur næst.
Náðir þú öllum þeim markmiðum sem þú ætlaðir þér á árinu?
Nei, því miður. Markmið mín voru að komast á pall á Evrópumeistaramótinu í tækni sem haldið var í Serbíu en mér gekk ekki eins vel og undanfarin mót og varð því að sætta mig við 9. sæti í þetta skipti. Einnig náði ég ekki markmiðinu mínu á Evrópumótinu í bardaga sem haldið var í Lettlandi.
Breyttir þú einhverju í þínum æfingum, venjum eða mataræði á árinu?
Já, ég þurfti bæði að breyta æfingum vegna hnémeiðsla og einnig þurfti ég að breyta mataræðinu.