Íþróttir

Stefnir á háskólastyrk í Flórída
Sunnudagur 28. október 2018 kl. 00:00

Stefnir á háskólastyrk í Flórída

Hún sat við sama borð og vinir hennar. Þeir voru að spila á spil en hún var að læra. Anita Lind Daníelsdóttir er 19 ára Keflvíkingur sem stundar nám við félagsvísindabraut í FS. Hún æfir fótbolta og segist ætla að sækja um íþróttastyrk í háskóla í Bandaríkjunum og reiknar með að byrja námið þar haustið 2019 en hún útskrifast sem stúdent í vor.

Hvernig líður þér í FS?
„Mér líður mjög vel. Ég hélt áfram strax eftir grunnskóla afþví að mig langaði ekki að stoppa. Vinirnir eru hérna og mér fannst það öruggara í upphafi þegar ég var busi. Þá var ég ekkert að hanga niðri í matsal og fór oftast heim í hádeginu en á öðru ári fór ég að koma hingað oftar. Það er mjög góð stemning í skólanum. Búin að eignast miklu fleiri vini eftir að ég byrjaði í FS.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvað finnst þér um Ísland?
„Við erum samheldin þjóð. Ég sá það þegar strákarnir okkar tóku þátt í EM hvað við hin stóðum vel við bakið á þeim.“

Spáirðu í stjórnmál?
„Mér finnst nóg að hugsa um skólann og íþróttir. Ég hef ekki kynnt mér flokkana. Planið mitt er að fara næsta haust í háskólanám til Bandaríkjanna, til Flórída. Þar fæ ég fullan styrk út á fótboltann og ég ætla jafnvel að búa þar áfram. Kemur í ljós, á eftir að finna hvernig mér líður þar.“

Hvaða umræða á Íslandi finnst þér skipta máli?
„Jafnrétti kynjanna. Konur eru með lægri laun fyrir sömu störf og karlar en það á ekki að vera þannig. Það er samt búið að laga helling eins og t.d. í fótboltanum en þar eru strákar samt ennþá að fá meira borgað en stelpurnar. Það hefur þó margt breyst til hins betra. Fleira fólk er að koma á leikina okkar núna og fjölmiðlar eru farnir að veita okkur meiri athygli en áður.“

Hvað fannst þér um bíómyndina Lof mér að falla?
„Að sjá myndina var verkefni í skólanum. Mér leið skringilega, hafði óþægilega tilfinningu eftir myndina. Þetta var svo raunverulegt í myndinni. Ég þekki ekki svona heim. Mjög harður heimur þar sem þú lætur misnota þig og misnotar aðra fyrir fíknina. Að sjá hvað fólk var tilbúið að ganga langt út af fíkn var ótrúlegt, að særa vini og fjölskyldu. Ég held að krakkar sem lenda í einelti geti alveg leiðst út í fíkniefnaneyslu vegna þess að þeim líður illa. Foreldrar þurfa að setja unglingum strangari reglur, hjálpa þeim að velja rétta leið í lífinu, vera vinir þeirra og fylgjast vel með því sem þau eru að gera.“

Ertu bjartsýn á framtíðina?
„Já ég er það. Ég er að útskrifast í vor og stefni á að láta drauma mína um fótbolta rætast.“