Stefnan tekin á atvinnumennskuna
- Björn Lúkas keppir í MMA
Björn Lúkas er fæddur og uppalinn Grindvíkingur sem er að stíga sín fyrstu skref í MMA. Hann sigraði á dögunum bardaga í Skotlandi og stefnir langt í bardaga heiminum. Víkurfréttir ræddu við Björn Lúkas um MMA og framtíðarplönin.
Hvenær byrjaðir þú að æfa bardagaíþróttir?
„Ég byrjaði fyrst að æfa júdó sex ára gamall og fór síðan í MMA þegar ég var tvítugur.“
Æfir þú oft í viku?
„Yfirleitt æfi ég um ellefu sinnum í viku, stundum sjaldnar eða oftar.“
Hvar æfir þú?
„Ég æfi í Mjölni en það er auðvitað nafli alheimsins hjá mér þessa dagana.“
Bardaginn sem þú sigraðir í Skotlandi var annar bardaginn þinn í MMA, var þessi ólíkur þeim fyrri?
„Undirbúningurinn var svipaður og líka tilfinninginn þegar ég labbaði í búrið. En ég var með stjórnina allan tímann í þessum bardaga á meðan fyrri bardaginn var smá ringulreið. Þeir voru svipað langir en í þessum gerðist svo miklu meira og ég réði hraðanum.“
Hvernig undirbýrð þú þig fyrir bardaga, bæði andlega og líkamlega?
„Mér finnst gott að hita líkamann almennilega upp til að hita kroppinn upp, ég nota „fómrúllu“, tek síðan fyrstu lotuna í klefanum og næ púlsinum upp. Síðan tek ég nokkur spörk í púða sem mig langar til að nota í bardaganum eins og t.d. hringsparkið sem ég byrjaði síðasta bardaga með. Þegar kemur að andlega þættinum þá hugsa ég um það sem ég ætla mér að gera í bardaganum. Ég hugsa líka um allt það sem ég hef gert áður þegar ég keppi af því ég veit ég mun standa mig vel þegar að því kemur að stíga inn í búrið.“
Hefur það alltaf verið markmið að keppa í MMA?
„Frá því að ég var 13 ára vissi ég að þetta væri það sem mig langaði að gera. Ég vildi klára ákveðna hluti fyrst, eins og skólann, næla mér í svart belti bæði, í júdó og taekwondó og prófa hnefaleika. En já, MMA var alltaf það sem ég stefndi á.“
Hvað er framundan hjá þér?
„Ég ætla að hvíla aðeins núna þar sem ég tognaði á ökkla fyrir bardagann en stefnan er sett á stórmót eins og HM eða EM. Svo eftir það sér maður hversu langt er í atvinnumennskuna.“