Stefnan sett beint á toppinn
-Samúel Kári snýr aftur á völlinn eftir 9 mánaða fjarveru
Samúel Kári Friðjónsson spilaði með varaliði Valerenga í 3-2 sigri á Nybergsund síðastliðinn mánudag, en það var fyrsti leikur Samúels síðan hann sleit krossband síðasta sumar, stuttu eftir að hann samdi við lið Valerenga.
Í samtali við Víkurfréttir segir Samúel það ólýsanlegt að vera loksins byrjaður að spila á fullu. „Þetta hefur verið erfitt en svo ótrúlega lærdómsríkt. Maður á aldrei að gefast upp, sama hvað bjátar á. Núna er stefnan bara beint á toppinn, að vinna sér inn sæti í liðinu strax.“ Hann segist vera spenntur fyrir komandi mánuðum og að allt líti vel út. „Þetta verður bara gaman. Nú tek ég með mér allt sem ég hef lært þann tíma sem ég var frá og nota það til að verða ennþá betri innan sem utan vallar,“ segir Samúel. Þá vill hann þakka Gunnari Má Mássyni fyrir alla hjálpina.