Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Stefán Örn: Persónulegt met
Föstudagur 7. júlí 2006 kl. 12:04

Stefán Örn: Persónulegt met

Hann hefur gert 5 mörk í síðustu þremur leikjum Keflavíkurliðsins sem er persónulegt met. Stefán Örn Arnarson hefur verið sjóðheitur upp á síðkastið og er að komast í það leikform sem hann vill vera í.

Stefán hóf að elda markasúpu sína gegn Breiðablik í síðustu viku þegar hann gerði tvö mörk í 5-0 sigri Keflavíkur gegn Breiðablik. Þá gerði Stefán sitt fyrsta Evrópumark er hann skoraði gegn Lilleström í Noregi þar sem Keflavík tapaði 4-1 fyrir heimamönnum. Í gær var Stefán svo enn á ný á skotskónum er hann setti inn tvö mörk gegn Leikni í 16 liða úrslitum VISA bikarkeppninnar.

Stefán þykir harður í horn að taka en viðurkenndi í samtali við Víkurfréttir að álagið síðustu daga væri farið að taka sinn toll. „Óneitanlega hefur álagið undanfarið sitt að segja en menn verða bara að hugsa vel um sjálfa sig og borða rétt, það skiptir öllu máli að hugsa vel um skrokkinn þegar álagið er mikið,“ sagði Stefán.

Álagið heldur áfram þar sem Keflvíkingar taka á móti Lilleström á sunnudag og freista þess að leggja Norðmennina að velli en til þess þurfa þeir að vinna Lilleström 3-0. „Það kemur ekkert annað til greina en að blása til sóknar og við þurfum að vinna 3-0,“ sagði Stefán og var viss í sinni sök þegar hann var inntur eftir veikleikum næst efsta liðsins í Noregi. „Svæðið fyrir framan miðja vörn þeirra er veikleiki liðsins,“ sagði Stefán en það var einmitt frá því svæði sem stungusendingin kom inn fyrir vörn Lilleström í útileiknum þegar Stefán gerði fyrsta Evrópumarkið sitt.

„Lilleström er með stórt og sterkt lið en við verðum að hafa einbeitninguna í lagi á sunnudag, það er enn möguleiki fyrir okkur að komast áfram og við förum í leikinn með það að leiðarljósi,“ sagði Stefán en honum líður vel í sókninni með félaga sínum Guðmundi Steinarssyni. „Við Gummi virkum vel saman og þekkjum vel inn á hvorn annan og það skiptir gríðarlegu máli,“ sagði Stefán að lokum og það er vonandi fyrir Keflavíkurliðið að Stefán haldi uppteknum hætti og taki sitt persónulega markamet skrefinu lengra.

VF-myndir/ Jón Örvar ArasonMyndir frá bikarleik Keflavíkur og Leiknis á fimmstudagskvöld þar sem Stefán gerði tvö mörk.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024