STEBBI Í REIS: VILL BYGGJA GO-CART BRAUT Í KEFLAVÍK
Njarðvíkingurinn Stefán Guðmundsson, Stebbi í Reis ehf., lætur sér ekki margt fyrir brjósti brenna og er staðráðinn í að byggja glæsilega Co-Cart braut og lætur sig jafnframt dreyma um fjölskyldugarð og tívolí á sama stað. Á fundi Skipulags- og byggingarnefndar Reykjanesbæjar þann 29. júlí sl. var umsókn hans um lóð sunnan Aðalgötu og ofan Iðavalla hafnað en samþykkt að skoða önnur svæði undir starfssemina. „Ég er búinn að ganga með þetta í maganum í rúmlega 2 ár og tel mig hafa reiknað dæmið til enda. Við erum að tala um 10-15 þúsund fermetra lóð og u.þ.b. 300 fermetra húsnæði og geri ég ráð fyrir að uppsetningarkostnaður verði á milli 20-30 milljónir. Nálægð við Reykjanesbrautina er nauðsynleg svo auðvelt verði fyrir höfuðborgarbúa að rata á svæðið. Þá er einnig nauðsynlegt að vera eins nálægt íbúðarbyggðinni og hávaðamengunarákvæði gera mögulegt þannig að fólk geti jafnvel komið fótgangandi á staðinn. Svæðið sem ég óskaði eftir er óræktað en skammt frá tveimur knattspyrnuvöllum Keflvíkinga. Þarna tel ég bæjarstjórn gefast kjörið tækifæri til að fegra svæðið auk þess sem bænum myndu berast umtalsverðar tekjur vegna framkvæmdanna og rekstursins. Engin rök fylgdu höfnun Skipulags- og byggingarráðs og bíð ég þess að fá nánari skýringar á málinu“ sagði Stefán hress í bragði að vanda.Árni Stefánsson, formaður Skipulags- og byggingarnefndar, sagði samning bæjarfélagsins við Utanríkisráðuneyti valda því að óheimilt væri aðúthluta lóðum þarna undir starfsemi þar sem fjöldi fólks safnaðist saman. Ástæða þess væri nálægðin við flugvöllinn. Við erum þó alls ekki mótfallnir hugmyndinn sem slíkri og tilbúnir til að skoða aðra staðsetningu með Stefáni.”