Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Starfsemi í fimleikahöllinni frá morgni til kvölds
Laugardagur 21. ágúst 2010 kl. 09:29

Starfsemi í fimleikahöllinni frá morgni til kvölds

-rætt við Maríu Óladóttur, framkvæmdastjóra Fimleikadeildar Keflavíkur


Það er margt framundan hjá Fimleikadeild Keflavíkur í vetur. Nýlega kom nýr þjálfari til félagsins, sá er Fransmaður og þykir afar fær í sínu fagi. Ráðning hans er liður í sérstakri afrekastefnu félagsins sem ekki alls fyrir löngu fékk fullkomna aðstöðu í húsi því sem áður hýsti Íþróttaakademíuna. Vonir eru bundnar við að bæði þjálfarinn og nýja aðstaðan stórbæti árangur félagsins sem hefur um 400 iðkendur í dag.

Nýr þjálfari –  betri árangur

„Stefnan er helst fólgin í því að komast betur á blað í fimleikaíþróttinni á Íslandi,“ svarar María Óladóttir, framkvæmdastjóri Fimleikadeildar Keflavíkur, aðspurð um afrekastefnu félagsins. Hún segir félagið hafa vantað herslumuninn í þeim efnum en nú verði unnið markvisst að því að vinna hann. „Að sjálfsögðu viljum við jafnframt höfða til þeirra sem finnst gaman að stunda fimleika sem áhugamál og tómstundagaman án þess að þetta snúist eingöngu um árangur í keppni ,“ segir María.
Nýi þjálfarinn heitir Phillippe Decrand. Hann var frækinn fimleikakappi á sínum yngri árum og hefur unnið við þjálfun eftir það, m.a. sem aðstoðarþjálfari franska landsliðsins.

Húsið verði betur nýtt


Um 400 iðkendur eru nú hjá Fimleikadeild Keflavíkur og vonast María til að sá hópur stækki í vetur. „Ég á allt eins von á að fjölgunin verði mikil ekki síst út af af bættri aðstöðu. Þá snýst málið um að hafa nægilega mikið af hæfu starfsfólki til að sinna þeirri fjölgun og við erum að vinna í því núna. Það er starfsemi í húsinu alla daga til kl. 21 á kvöldin. Við vorum með lokað á sunnudögum en ég reikna með að við höfum opið á sunnudögum í vetur. Mesta starfsemin er eftir að skóla lýkur á daginn en eitt af því sem okkur langar til að gera er að auka umferðina hér á morgnana og nýta húsið betur. Í því skyni ætlum við t.d. að bjóða upp á mömmuleikfimi í vetur. Hópum er t.d. velkomið að hafa samband ef þeir vilja fá salinn á morgnana,“ segir María.
Þá hefur FK boðið öðrum fimleikafélögum aðstöðu í húsinu og má í því sambandi nefna að íslenska karlalandsliðið í hópfimleikum dvaldi þar nýlega í æfingabúðum. Næstu helgi verður fimleikadeildin á Selfossi þar í æfingabúðum til að undirbúa þátttöku í Evrópumóti og unglingalandsliðið verður í húsinu fyrstu helgina í september.
„Húsið hefur því á vissan hátt komið okkur á kortið í fimleikaíþróttinni. Allt í einu vilja allir koma til Keflavíkur,“ segir María.

Strákar vilja Parkour


Margir þekkja glæsilegar og metnaðarfullar jólasýningar FK. Í þeim kristallast kannski best ójöfn kynjaskiptingin í íþróttinni þar sem sjá má sal fullan af fimleikastelpum en aðeins örfáa stráka. Aðspurð um þetta segir María ekki ganga nógu vel að fá stráka til að stunda fimleika. „Við vorum með nokkra 6-7 ára stráka í vetur og vonandi koma þeir aftur. Við erum með fimleikaáhöld fyrir stráka og í raun ekkert að vanbúnaði til að taka á móti þeim. En því er ekki að neita að það hefur komið upp að strákar hafa hætt af því að þeim er strítt í skólanum og litið á þetta sem stelpuíþrótt. Þetta er eitt af því sem við erum að vinna í og viljum breyta. Síðasta vetur vorum við t.d. með Parkour sem eru nokkurs konar götufimleikar og hefur náð miklum vinsældum. Þarna vorum við að bjóða upp á öruggari leið heldur en að stunda þetta úti á götu og það var alveg rosalega vinsælt hjá strákum. Í ljósi vinsældanna ætlum við að halda áfram með þetta í vetur,“ segir María.
Á meðal þess sem FK býður einnig upp á í vetur, fyrir utan hefðbundna dagskrá, verða krakkafimleikar fyrir börn fædd 2006 – 2008. Þá verður einnig boðið upp á fimleika fyrir fullorðna, annars vegar á aldrinum 18 - 25 ára og hinsvegar 25 ára og eldri. Þá verður einnig boðið upp á æfingar á stóru trampolíni, sem er nýmæli hjá félaginu. Einnig verður boðið upp á námskeið sem kallast Kraftform, ætlað þeim sem vilja komast í fimleikaform. Það verður því nóg um að vera hjá Fimleikadeild Keflavíkur í vetur.

Efri mynd: María Óladóttir, framkvæmdastjóri FK.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Neðri mynd: Á æfingu með Phillippe Decrand. VFmyndir/elg.