Stáltaugar og heitur pútter hjá Loga Íslandsmeistara í golfi 2023 - pabbinn hágrét
Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í golfi með sigurpútti á lokaflöt Urriðavallar á Íslandsmótinu 2023. „Ég var mjög heitur á pútternum. Púttin skópu þennan sigur hjá mér,“ sagði Logi í viðtali eftir sigurinn.
Fjöldi áhorfenda fylgdist með bestu kylfingum landsins berjast um stærsta titilinn í karla- og kvennaflokki. Logi lék jafnt og mjög gott golf alla fjóra hringina en kom sér í toppbaráttuna með frábærum öðrum hring. Hann hélt sínu striki og var í öðru sæti fyrir lokahringinn, fjórum höggum á eftir Hlyni Geir Hjartarsyni frá Selfossi. Logi var öryggið uppmálað á meðan Hlynur gerði sjaldséð mistök í þrígang á fyrri níu holunum á lokahringnum. Logi segir að örn á tólftu holu og fugl á þeirri þrettándu hafi komið honum í þægilega stöðu með fjögurra högga forskot þegar fimm holur voru eftir. Hlynur tók tvö högg af því með fuglum á fimmtándu og sextándu holu og setti svo þrýsting á Suðurnesjamanninn á átjándu braut. Logi lenti í einu vandræðum dagsins eftir upphafshöggið á þeirri átjándu og þurfti svo að setja niður eins og hálfs metra pútt á lokaflötinni fyrir skolla til að tryggja sér sigur, sem hann og gerði. „Ég var með línuna og en auðvitað var smá skjálfti í púttstrokunni. Þetta var fyrir titlinum,“ segir Logi og bætir því við að hann hafi unnið mikið í andlega þættinum sem er mörgum kylfingum erfiður. „Ég hringdi í Brynjar nuddara, vin minn í Grindavík, kvöldið fyrir lokadaginn og við áttum gott spjall. Hann hefur hjálpað mér mikið. Þeir Sigurpáll Geir Sveinsson og Magnús Birgisson hafa síðan hjálpað mér í öðru sem tengist golfinu.“
Logi lék 72 holurnar á ellefu höggum undir pari en mótsmetið á Íslandsmóti er þrettán undir pari.
Logi var í golfi og knattspyrnu á yngri árum en hann er 21 árs. Hann hættir í fótboltanum árið 2018 og sneri sér alveg að golfi undir handleiðslu nýs þjálfara, Sigurpáls Geirs Sveinssonar. Logi varð klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja í sumar, hann varð Íslandsmeistari unglinga í höggleik 19–21 árs í fyrra og svo hefur hann unnið fleiri titla en var hann farinn að hugsa um þann stóra? „Nei, mín markmið voru þau að gera atlögu að Íslandsmeistaratitli karla á næsta eða þar næsta ári. Þetta kom því virkilega vel á óvart. Ég hef æft mjög vel undanfarin ár. Á mínum heimavelli í Leirunni á sumrin en svo hef ég haft tækifæri á að stunda æfingar í útlöndum á haustin og vorin þar sem ég hef verið við golfkennslu í golfferðum. Svo hef ég líka æft vel í golfhermum yfir veturinn – en það er gott að hafa náð þessu núna. Það skipti líka sköpum fyrir mig að hafa pabba (Sigurð Sigurðsson) á pokanum. Hann var kylfusveinn alla dagana. Við unnum vel saman og það var gott að hafa hans reynslu í þessari baráttu. Svo er auðvitað gaman að fá mitt nafn á bikarinn sem pabbi vann 1988.“
Pabbinn hágrét
Pabbi Loga, Sigurður Sigurðsson, var syninum til halds og trausts í mótinu og var kylfusveinn alla fjóra keppnisdagana. „Ég get ekki lýst þessu en ég hágrét. Tilfinninin var svo geggjuð að ég fékk gæsahúð. Við unnum vel saman í mótinu og hann treysti á gamla kallinn,“ segir Sigurður Sigurðsson, kylfusveinn og faðir Loga, eftir að sonurinn hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í golfi 2023 á Urriðavelli í Garðabæ á sunnudag.
„Ég fann þetta á mér þegar við vorum að hefja leik á lokadeginum. Hann var svo vel „peppaður“ og einbeittur. Logi átti spjall við Brynjar vin okkar í Grindavík kvöldinu áður og það hjálpaði til.“
En hvað segir Sigurður um spennuna á síðustu flötinni en Logi þurfti að setja niður um eins og hálfs metra pútt. „Hann var aldrei að fara að missa þetta pútt. Hann hafði ekki gert það í öllu mótinu og var allt mótið með mikla trú á sjálfum sér. Þetta var geggjað en ég viðurkenni að ég var stressaður allan tímann, frá fyrsta höggi og til þess síðasta. Það er partur af þessu, adrenalínið á fullu og ég lifði mig inni í þetta með honum. Það var svo gaman,“ sagði faðirinn stoltur.