Stærsti leikur Keflavíkur í tvö ár
- segir markmaður Keflvíkinga, Sindri Ólafsson. Leikurinn í beinni á Facebook síðu Víkurfrétta
„Leikurinn í kvöld er eins og hver annar leikur og þjálfarinn er búinn að setja hann vel upp. Hver leikur er mikilvægur og við verðum að sækja þrjú stig. Grótta er með öflugt lið og vilja bjarga sér frá falli þannig við verðum að mæta til leiks annars fer illa,“ segir Sindri Kristinn Ólafsson, markmaður Keflavíkur, en hann fór á kostum í leik liðsins í síðustu viku þegar hann varði tvær vítaspyrnur. Keflavík mætir Gróttu í kvöld í Inkasso deild karla í knattspyrnu og geta þeir tryggt sér sæti í Pepsi-deildinni fari þeir með sigur af hólmi. Það er því mikið undir í leik kvöldsins.
Keflavík er í efsta sæti Inkasso deildarinnar með 40 stig og Fylkir fylgir fast á hæla þeirra með 39 stig.
Við heyrðum í Sindra Kristni Ólafssyni, markmanni Keflavíkur, og ræddum við hann um leikinn.
Hvernig er stemmingin í hópnum?
„Hópurinn er heill eða flestallir í honum. Við erum með nokkra eldri menn sem er tjaslað saman og allir verða klárir í leikinn í kvöld.“
Sindri átti stórleik í síðustu viku með Keflavík þegar hann varði tvö víti.
Hvernig var tilfinningin eftir síðasta leik?
„Það er alltaf gaman að geta hjálpað liðinu og bónus að ná að verja tvær vítaspyrnur. Við vorum sáttir með að skora þrjú mörk, halda hreinu og taka þrjú góð stig með í baráttunni um að komast upp í Pepsi-deildina.“
Finnið þið fyrir pressu að komast upp í efstu deild eða fyrir spennu fyrir leikinn í kvöld?
„Leikurinn í kvöld er eins og hver annar leikur og þjálfarinn er búinn að setja hann vel upp. Hver leikur er mikilvægur og við verðum að sækja þrjú stig í kvöld. Grótta er með öflugt lið og vilja bjarga sér frá falli þannig við verðum að mæta til leiks annars fer illa.“
Sindri spilaði með U21 árs liði Íslands síðastliðinn mánudag þar sem Ísland fór með sigur af hólmi.
Hvernig ert þú stemmdur fyrir leikinn eftir síðustu daga?
„Það er engin þreyta í mér. Eg fór og hitti Ómar markmannsþjálfara um daginn til að gera mig kláran fyrir leikinn í kvöld. Ég er búinn að undirbúa mig vel og líður vel.“
Óli Stefán þjálfari Grindavíkur bíður spenntur eftir ykkur í Pepsi-deildinni og segir Suðurnesjaleikina vera skemmtilegustu leikina, ertu sammála?
„Það yrði frábært ef við komumst upp og förum að spila gegn Grindavík. Þeir leikir eru alltaf rosalegir. Ég get ekki beðið eftir því að fá að spila þá leiki.“
Sindri segir einnig að hver og einn leikmaður sé klár fyrir kvöldið og hausinn vel skrúfaður á, leikurinn í kvöld sé sá stærsti hjá Keflavík í tvö ár en Sindri hvetur alla að mæta á völlinn og styðja liðið.
Þrjár umferðir eru eftir í Inkasso-deild karla en leikur Keflavíkur og Gróttu hefst kl. 17:30 á Nettóvellinum.