Stærsta golfmót ársins í Leirunni í sumar
„Það er alltaf gaman að halda Íslandsmót í höggleik. Þá mæta allir bestu kylfingar landsins og keppa um stærsta titil ársins í karla- og kvennaflokki,“ segir Gunnar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Suðurnesja en Íslandsmótið í höggleik verður í Leirunni dagana 21.-24. júlí nk.
Undirbúningur fyrir mótið hefur staðið yfir undanfarna mánuði en klúbburinn þarf að treysta á klúbbfélaga til að hjálpa til við ýmis sjálboðaliðastörf á meðan á mótinu stendur. Sýnt er frá mótinu í beinni útsendingu á RÚV síðustu tvo keppnisdagana og þá þarf margar hendur til að skrá niður skor og aðstoða við mörg störf til að allt gangi upp. Skorskráningin flyst jafn óðum inn á netsíðu golfsambandsins, golf.is og inn í beina útsendingu sjónvarpsins þannig að áhorfendur sem og netnotendur geta fylgst með stöðu mála holu fyrir holu ef þeir eru ekki á staðnum.
Að sögn Gunnars hefur aðal áherslan verið lögð á snyrtingu Hólmsvallar fyrir mótið en völlurinn er meðal þeirra bestu á landinu. Þetta er í þriðja sinn sem mótið er sýnt í beinni útsendingu frá Hólmsvelli en það var gert í fyrsta sinn 1998 og þótti marka tímamót í íslensku golfi. Aldrei áður hafði golf á Íslandi verið sýnt í beinni útsendingu en fyrstu þrettán árin var sýnt frá mótinu á Sýn og Stöð 2 sport en síðustu tvö árin á RÚV.
Ekki hafa verið gerðar neinar stórar breytingar á Hólmsvelli en þó hafa nærri tuttugu sandglompur verið lagaðar. Þá hefur verið gert stórt átak í gerð stíga á vellinum sem kemur sér vel fyrir keppendur, áhorfendur og vallarstarfsmenn. Flatir og brautir eru í mjög góðu ásigkomulagi en þó hefur þurft að leggja mikla vinnu í vökvun síðustu tvær vikurnar þar sem ekki hefur komið dropi úr lofti.
Forráðamenn GS eru vanir að halda stórmót og eiga von á mörgum áhorfendum í Leiruna keppnisdagana. Von er á öllum bestu kylfingum landsins í karla- og kvennaflokki, m.a. hefur Birgir Leifur Hafþórsson, fjórfaldur Íslandsmeistari og atvinnumaður boðað komu sína. Bestu kylfingar Golfklúbbs Suðurnesja hafa staðið sig betur á Eimskipsmótaröðinni í sumar en það er mótaröð bestu kylfinga landsins og er aldrei að vita nema okkar menn komi sterkir inn á heimavelli.
„Við vonum að okkar menn verði heitir á mótinu þó svo að Birgir Leifur sé án efa sigurstranglegastur,“ sagði Gunnar.
Áður en Íslandsmót gengur í garð verður meistaramót Golfklúbbs Suðurnesja í næstu viku en það er stærsta innfélagsmót klúbbsins þar sem um 200 keppendur mæta til leiks. Gunnar sagði að starfið gengi vel í GS og félagafjöldi væri svipaður og undanfarin ár þó svo að verri tíð hafi komið eitthvað í veg fyrir að nýir félagar hafi komið í Leiruna eins og vonast var til í sumar.