Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stækkun í 18 holur hefur breytt öllu
Mánudagur 16. júní 2014 kl. 09:16

Stækkun í 18 holur hefur breytt öllu

Golfíþróttin í Grindavík er í mikilli sókn.

-Halldór Einir Smárason er nýr formaður Golfklúbbs Grindavíkur -

Uppgangur Golfklúbbs Grindavíkur á undanförnum árum hefur verið hraður. Sumarið 2012 tók klúbburinn í notkun Húsatóftavöll sem 18 holur sem er stór og mikill áfangi fyrir Golfklúbb Grindavíkur. Í kjölfarið tók klúbburinn í noktun nýtt klúbbhús og saman breytir þetta  rekstrargrundvelli klúbbsins talsvert. Í raun má segja að klúbburinn hafi fullorðnast og skipar Húsatóftavöllur sér sess sem einn af skemmtilegustu golfvöllum landsins.

Félagsmönnum GG hefur fjölgað á síðustu árum og eru um 200 í dag. Halldór Einir Smárason var í byrjun árs kjörinn nýr formaður klúbbsins og tók við embættinu af Páli Erlingssyni sem stýrt hefur starfi klúbbsins í gegnum mikla uppbygginu.

„Það leggst ljómandi vel í mig að taka við embætti formanns og ég hlakka til að takast á við þessa áskorun,“ segir Halldór Einir. „Áhugi minn á klúbbnum hefur vaxið mikið undanfarin ár, en það eru níu ár síðan ég gekk í klúbbinn og byrjaði að spila golf. Það er mikil áskorun fólgin í formennsku en um leið ákveðin forréttindi að vera formaður í svona félagsskap sem golfið er.“



Klæðning skála og bílastæði stóru verkefni ársins
Golfklúbbur Grindavíkur fagnaði 30 ára afmæli sínu sumarið 2011. Klúbburinn hefur sett talsvert fjármagn í framkvæmdir á síðustu árum. Að mörgu þarf þó að huga og tók klúbburinn í notkun nýja vefsíðu, gggolf.is, á vormánuðum. Halldór Einir leggur þó áherslu á að ljúka tveimur stórum verkefnum í ár.

„Klæðning skála og malbikun bílastæðis eru stóru mál ársins. Í ár verða engar breytingar gerðar á vellinum þannig að þar er bara hefðbundið viðhald og snyrting. Stígar eru í sífelldri endurnýjun og viðhaldi, einnig erum við að setja nýjar ruslafötur og bekki á teigana,“ segir Halldór „Félagsstarfið er í góðum farvegi, þó verða einhverjar áherslubreytingar þar.“

Efla kvenna- og nýliðastarf
„Golfklúbburinn býr að frábærum félögum sem hafa í gegn um árin unnið þrekvirki við hinar ýmsu framkvæmdir. Fjöldi félaga í GG losar 200 manns,“ segir Halldór Einir. Stefnan er tekin að því að fjölga grindvískum kylfingum.

„Ráðning Helga Dan sem PGA golfkennara til klúbbsins mun vonandi efla nýliðun, kvennastarf og auka fagmennsku. Félagsstarfið má alltaf bæta, barna- og unglingastarfið þarf stöðuga athygli, eins höfum við í hyggju að bæta kvennastarfið.“

Stækkun í 18 holur breytir öllu
18 holu golfvellir á Íslandi eru rétt um 20 talsins. Umferð um Húsatóftavöll hefur vaxið talsvert eftir að völlurinn stækkaði í 18 holur og hafa vinsældir vallarins aukist jafnt og þétt á síðustu þremur árum.

„Að fara úr 13 holum í 18 breytir í raun öllu. 18 holu völlur með rástímaskráningu á netinu er ekkert í líkingu við gamla 13 holu völlinn, þó svo að ákveðin ljómi sé yfir gamla fyrirkomulaginu. Með netskráningu er hægt að skipuleggja alla umferð um völlinn ásamt því að fylgjast með aðsókn yfir árið. Í dag getum við verið með samfellda ræsingu í mótum sem ekki var hægt áður. Á 18 holu velli er mun auðveldara að afgreiða hópa sem vilja ræsa samtímis,“ segir Halldór.

„Klúbbhúsið er bylting fyrir allt félagsstarf, veitingasölu og afgreiðslu hópa. Við stefnum á að bæta félagsstarfið sérstaklega og klúbbhúsið kemur til með að spila þar stóra rullu. Ekki má gleyma útsýninu úr klúbbhúsinu sem er í einu orði sagt stórkostlegt.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Framtíðin björt
Eftir mikil framkvæmdaár þá mun færi gefast til að huga frekar að öðrum þáttum klúbbsins líkt og félagastarfi. Halldór telur framtíð klúbbsins bjarta og að Golfklúbbur Grindavíkur hafi mörg tækifæri.

„Án félaga er enginn golfklúbbur. Að mínu mati þá verðum við að efla barna- og unglingastarf því þar kemur nýliðunin sem allt innra starf byggir síðan á að lokum,“ segir Halldór Einir.

„Framtíð okkar byggir ekki síður á stuðningi bæjaryfirvalda og fyrirtækja sem hafa í gegn um árin styrkt starf GG af stórhug. Þegar þetta tvennt fer saman, öflugt félagsstarf og stórhuga fyrirtæki þá er framtíð GG björt. Golfklúbbur Grindavíkur verður í fremstu röð golfklúbba á Íslandi og Húsatóftavöllur í hópi bestu golfvalla landsins. Þetta eru þau markmið sem við höfum sett okkur sjálfir, þó svo að það sé mat hvers og eins hvað sé gott eða best í golfi. Ný vélageymsla og nýtt æfingasvæði er eitthvað sem við stefnum að því að verði til staðar á Húsatóftavelli árið 2024.“

Það eru allir velkomnir á Húsatóftavöll og í heimsókn til Golfklúbbs Grindavíkur. Golf er frábær almenningsíþrótt og Grindvíkingar eiga frábæran golfvöll aðeins um fimm kílómetra frá bænum. Við hvetjum alla Grindvíkinga til að prófa golf í sumar. Haldin verða nýliðanámskeið í sumar þar sem byrjendum í íþróttinni gefst færi á að kynnast golfi undir leiðsögn kennara án endurgjalds. Grindvíkingar, prófum golf í sumar.