Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 3. apríl 2004 kl. 20:13

Staðan jöfn í einvíginu, Dickerson í bann?

Keflavík hafði sigur gegn Snæfelli í öðrum leik liðanna í dag, 104-98. Staðan er því 1-1 í einvígi liðanna, en þriðji leikurinn verður í Stykkishólmi á mánudaginn.
Íþróttahúsið í Keflavík var fullt út úr dyrum þar sem stuðningsmenn Snæfellinga voru síst færri en heimamenn og nötraði húsið hreinlega þegar stuðningsmenn liðanna hófu upp raustir sínar.

Keflvíkingar byrjuðu betur og höfðu frumkvæðið í fyrsta leikhluta þar sem Nick Bradford fór fyrir sínum mönnum.
Í öðrum leikhluta juku heimamenn forskotið og leiddu með 9 stigum, 31-22, eftir rúmar 2 mínútur. Snæfellingar svöruðu hins vegar og náðu forskotinu með því að skora 16 stig á móti 4 frá Keflavík þar sem Dondrell Whitmore skoraði fjórar 3ja stiga körfur úr jafnmörgum tilraunum.
Það sem eftir lifði hálfleiknum skiptust liðin á að leiða og í leikhléi var staðan jöfn, 47-47 og allt í járnum.

Í seinni hálfleik náðu gestirnir forystunni og var spennan þvílík að allt ætlaði uppúr að sjóða. Munurinn var þó aldrei mikill og fór hann aldrei yfir 4 stig.
Um miðjan leikhlutann kom Sverrir Þór Sverrisson inn á og gjörbreytti varnarleik sinna manna.
Keflvíkingar náðu tökum á sóknarleik Snæfellinga og náðu forystunni á ný og leiddu 70-64 þegar leikhlutinn var á enda.
Sverrir Þór hélt uppteknum hætti í upphafi lokafjórðungsins og gerði Hólmurum lífið leitt. Keflvíkingar skoruðu 12 stig gegn 3 stigum gestanna og náðu þar með 16 stiga forskoti. Snæfell hitti ekki utan af velli fyrr en eftir 4 mínútur og virtust Keflvíkingar því vera búnir að tryggja sigurinn.
Slíkt var þó ekki uppi á teningnum og sýndu gestirnir af sér mikinn karakter þar sem þeir neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn jafnt og þétt.
Hlynur Bæringsson skoraði m.a. tvær 3ja stiga körfur í röð og minnkaði muninn niður í 4 stig, 102-98, með þeirri þriðju.
Keflvíkingar héldu þó sjó og mörðu út góðan sigur og munaði þar mest um framlag Magnúsar Þórs Gunnarssonar sem skoraði 11 stig á lokasprettinum.

Á síðustu mínútu leiksins veittist Corey Dickerson, bakvörður Snæfells, að Arnari Frey og var sendur í sturtu fyrir vikið. Dickerson verður því væntanlega í banni þegar liðin mætast í þriðja sinn á mánudaginn og er það mikil blóðtaka fyrir Snæfell.

Stigahæstir:

Keflavík: Bradford 26, Allen 25, Magnús 18, Fannar 12. Gunnar Einarsson 9.

Snæfell: Whitmore 25, Hlynur Bæringsson 23/16, Dickerson 22, Dotson 19.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024