Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Staðan 2-1 fyrir Keflavík - Þægilegur sigur í kvöld gegn KR
Föstudagur 25. mars 2011 kl. 21:27

Staðan 2-1 fyrir Keflavík - Þægilegur sigur í kvöld gegn KR

Keflvíkingar tóku á móti KR á heimavelli í þriðja leik rimmu liðanna í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Keflvíkingar fóru með sigur af hólmi eftir að hafa leitt bróðurpart leiksins 76-64, sigurinn var í raun aldrei í hættu hjá heimamönnum.

Nýja erlenda leikmanni Keflavíkur, Lisa Karcic var skellt beint út í djúpu laugina er hún var sett beint í byrjunarliðið gegn KR í kvöld. KR-ingar byrjuðu af krafti og komust í 0-6 strax í upphafi leiks. Leikurinn jafnaðist þó og Keflvíkingar leiddu að loknum fyrsta leikhluta 15-12. Bryndís Guðmundsdóttir var þá komin með 8 stig en fljótlega í byrjun annars leikhluta fékk hún sína þriðju villu og kom ekki meira við sögu það sem eftir lifði hálfleiks. Hrund Jóhannsdóttir kom inn fyrir Bryndísi og hún átti sannarlega eftir að láta til sín taka. Keflvíkingar settu í þriðja gír og náðu muninum upp í heil 20 stig þegar rúmar þrjár mínútur voru til leikhlés, 35-15. KR náði aðeins að klóra í bakkann og staðan þegar gengið var til búningsherbergja, 38-25 fyrir heimamenn í Keflavík.

Bryndís Guðmundsdóttir var stigahæst í leikhlé með 8 stig en Lisa Karcic var með 7 stig og 4 fráköst. Ingibjörg Jakobsdóttir var einnig með 7 stig og Birna Valgarðdóttir og Hrund Jóhannsdóttir voru báðar með 5 stig.

Ingibjörg Jakobsdóttir byrjaði þriðja leikhlutann með látum og setti sjö fyrstu stigin fyrir Keflavík. KR-ingar komust aðeins nær Keflvíkingum en þó létu heimamenn forystuna ekki af hendi og munurinn einungis 5 stig 53-48 fyrir fjórða leikhluta. Þegar svo þrjár mínútur eru liðnar af lokaleikhlutanum er munurinn kominn í tvö stig 55-53 fyrir Keflavík, skömmu síðar fær svo Melissa Jeltema, nýji erlendi leikmaður KR sína fimmtu villu í stöðunni 67-56. Eftirleikurinn var síðannokkuð  auðveldur fyrir Keflavíkurstúlkur og þær lönduðu þægilegum sigri 76-64.

Atkvæðamestar hjá Keflavík í kvöld: Bryndís Guðmundsdóttir 18/5 fráköst, Birna Valgarðsdóttir 18/5 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 14, Lisa Karcic 12/12 fráköst, 6 stolna bolta, 4 varin skot.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lisa Karcic stóð sig glæsilega í kvöld og skilaði 12 stigum 12 fráköstum ásamt 6 stolnum boltum og 4 vörðum skotum.





Fleiri myndir í ljósmyndasafni Víkurfrétta hér á vf.is

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson