Spyrjast fyrir um Baldur
Nokkur erlend félög hafa verið að spyrjast fyrir um knattspyrnumanninn Baldur Sigurðsson, leikmann Keflavíkur í Landsbankadeildinni. Þetta segir Rúnar V. Arnarson, formaður KSD Keflavíkur, í samtali við vefmiðilinn fotbolti.net í dag.
Ekkert tilboð hefur enn borist í Baldur en hann fór til reynslu til Lyn í Noregi í desember á síðasta ári. Baldur átti frábært tímabil með Keflavík á síðustu leiktíð og vakti mikla athygli hér heima og erlendis með frammistöðu sinni.
Baldur lék 16 leiki í Landsbankadeildinni á síðustu leiktíð og gerði í þeim leikjum fjögur mörk. Þá gerði Baldur síðara mark Keflavíkur í 2-0 Bikarsigri gegn KR á Laugardalsvelli.