Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Spurt og svarað: Kristinn dæmir á laugardag
Fimmtudagur 27. september 2007 kl. 14:10

Spurt og svarað: Kristinn dæmir á laugardag

Knattspyrnudómarinn reyndi Kristinn Jakobsson mun dæma leik Keflavíkur og ÍA í síðustu umferð Landsbankadeildarinnar á laugardag. Leikurinn hefst kl. 14:00 á Keflavíkurvelli. Kristinn sem er einhver reyndasti knattspyrnudómari landsins mun dæma leikinn en hann var einnig dómari uppi á Skipaskaga í sumar þegar upp úr sauð eftir mark Bjarna Guðjónssonar.

 

Bjarni skoraði mark frá miðjum velli eftir að Keflavík hafði spyrnt boltanum af leikvelli svo hægt væri að hlúa að leikmanni sem lá í grasinu. Óskrifaðar siðareglur eru síðan að liðið sem á innkast komi boltanum að nýju til þess lið sem spyrnti honum utan vallar. Bjarni kom boltanum aftur til Keflavíkur, bara yfir marklínuna.

 

Töluverða athygli hefur vakið að Kristinn muni dæma leikinn á laugardag þar sem það gæti verið slæm áminning um það leiðindaatvik sem átti sér stað uppi á Skaga. Af þessu tilefni settu Víkurfréttir af stað litla könnun og spurðu eftirfarandi hvað þeim fyndist um að Kristinn myndi dæma leikinn:

 

Hvað finnst þér um að Kristinn Jakobsson dæmi leik Keflavíkur og ÍA á laugardag?

 

Kristján Helgi Jóhannsson, framkvæmdastjóri KSD Reynis í Sandgerði:

Mér finnst það bara allt í lagi. Það er það mikið búið að ganga á á milli Kidda og Gauja Þórðar í sumar að hann verður á tánum í þessum leik. Ef eitthvað er þá er þetta bara betra fyrir Keflvíkinga.

 

Sigurður Ingimundarson, þjálfari A-landsliðs karla í körfuknattleik sem og þjálfari Keflavíkur í Iceland Express deild karla:

Mér líst vel á það því hann er mjög góður dómari og það skiptir engu máli að hann dæmdi síðasta leik þessara liða.

 

Gísli Gíslason, formaður rekstrarfélags meistaraflokks ÍA:

Ég hef enga athugassemd með að Kristinn dæmi leikinn, hann er einn besti dómari landsins. Þessi leikur er eIns og hvert annað verkefni.  Leikurinn  á laugardag er eins og hver annar leikur og ástæðulaust að hafa áhyggjur af einhverjum fortíðardraugum sem hafa verið kveðnir niður. Vonandi verður leikurinn bara skemmtilegur og áhorfendum til ánægju, það fer vel á að kveðja keppnistímabilið með því.

 

Unnar Steinn Bjarndal, hdl. Umboðsskrifstofan Prolex, Reykjanesbæ:

Kristinn Jakobsson er góður dómari og fagmaður í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Það má búast við nokkrum taugatirtingi í umræddum leik en fáir eru jafn vel til þess fallnir að fást við það og Kristinn. 

 

[email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024