Sprenging hefur orðið í golfinu
Meistaramótsvika framundan
Mikill vöxtur og fjölgun félaga er hjá golfklúbbum þetta árið og því má búast við góðri þátttöku í meistaramótunum sem að margra mati eru hápunktur golfsumarsins.
Líkleg skýring mikillar aukningar á golfiðkun landsmanna er talin vera ein afleiðinga kórónuveirufaraldursins en margir eru þessa dagana í skertu starfshlutfalli vegna ástandsins, hafa margir því rýmri tíma til að sinna áhugamálum sínum. Atvinnuástandið er sínu verst hér á Suðurnesjum þar sem stórir atvinnuveitendur hafa þurft að draga saman seglin. Það hlýtur að teljast jákvætt fyrir þá sem eru í þeirri stöðu að taka upp áhugamál eins og golf eða aðra hreyfingu og útivist, hreyfing er hverri manneskju lífsnauðsynleg. Það er margsannað að hún hjálpar upp á andlegu hliðina og á því er mikil þörf núna.
Víkurfréttir heyrðu í Andreu Ásgrímsdóttur, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Suðurnesja, og spurðist fyrir um fjölgunina í sumar:
„Í klúbbnum eru um 650 meðlimir, þar af 80 nýliðar í golfi sem hafa skráð sig í klúbbinn í sumar. Á nýliðanámskeiðin í vor komu 120 manns og við vorum að bæta við einu námskeiði til viðbótar í júlí sem við gerum ráð fyrir að fyllist fljótt ef marka má fyrirspurnir. Svo auðvitað er mikil aukning í kvennagolfinu þó ekki séu þær allar ennþá komnar í klúbbinn. 50 manns mættu á nýliðadaginn sem haldinn var á sunnudag þar sem félagar í GS, sjálfboðaliðar, fylgdu nýliðum eftir og kenndu þeim á völlinn – af þeim hópi eru ekki allir orðnir félagar. Mikil aukning hefur líka verið á æfingasvæðið og Jóel [æfingavöll GS] þannig að það hefur verið mikið um að vera undanfarið og við vonumst auðvitað til að fá enn fleiri GS-félaga í framhaldinu.“
Meistaramót í júlí
Meistaramót golfklúbba á Suðurnesjum eru rétt handan við hornið. Dagana 8.–11. júlí halda Golfklúbbur Suðurnesja (GS) og Golfklúbbur Sandgerðis (GSG) sín meistaramót, hjá Golfklúbbi Grindavíkur (GG) verður meistaramót svo viku síðar, 15.–18. júlí.
Golfklúbbur Vatnsleysustrandar (GVS) hefur þegar haldið sitt meistaramót og eru Heiður Björk Friðbjörnsdóttir og Adam Örn Stefánsson klúbbmeistarar 2020. Nánar um úrslit meistaramóts GVS má lesa á kylfingur.is