Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sprækir Blikar unnu Keflvíkinga sannfærandi
Fimmtudagur 9. ágúst 2007 kl. 22:31

Sprækir Blikar unnu Keflvíkinga sannfærandi

Keflvíkingar riðu ekki feitum hesti gegn frískum Blikum í leik liðanna í Keflavík í kvöld og máttu þola 0:3 tap þar sem heimamenn áttu sinn slakasta leik í sumar.
Blikar voru miklu betri í leiknum í kvöld og skoruðu fyrsta markið á 22. mínútu en Zivanovic ýtti boltanum yfir marklínuna 0:1.
Keflvíkingum gekk illa að láta boltann ganga á milli manna eins og þeir eru þekktir fyrir og virtust á hælunum allan leikinn. Blikar hentu blautu handklæði í andlit heimamanna með marki á lokamínútu fyrri hálfleiks. Prince Rajcomar fékk boltann frá vinstri kantinum og lék honum framhjá Ómari markverði sem varð pabbi síðasta laugardag og kom þeim grænu í 0:2. Heimamenn áttu eitt dauðafæri í fyrri hálfleiknum en þá skaut nýliðinn Pétur H. Kristjánsson í stöng eftir góða fyrirgjöf Símuns Samuelsen. Það reyndist eina alvöru færi Keflavíkur í leiknum og hefði lukkan verið með heimamönnum og þeir jafnað með því skoti er ekki gott að segja en svo virtist sem allur vindur væri úr leikmönnum.

Stuðningsmenn bikarmeistara Keflavíkur bjuggust við frískara liði í seinni hálfleik en því var ekki að fagna. Blikar voru betri á öllum sviðum fótboltans og stuðningsmenn Keflavíkur máttu líka þola sigursöngva stuðningsliðs þeirra grænklæddu sem sungu Puma sveitina í blautt svaðið. Söngsveit Keflavíkur mátti þola útreið eins og leikmennirnir og þá er það orðið slæmt.
Keflvíkingar reyndu að rífa upp baráttuna með því að skipta inn á þremur mönnum í seinni hálfleik en hvorki bjargvætturinn Þórarinn Kristjánsson eða Magnús Sverrir Þorsteinsson náðu að vítamínbæta veikt Keflavíkurlið. Til að bæta gráu ofan á svart fékk Kenneth Gustafsson, hinn hávaxni varnarmaður heimamanna, tvö gul spjöld í lokin, annað að því er virtist fyrir röfl og tuð í dómara og þurfti því að fara af leikvelli. Blikar skoruðu þriðja markið á 82. mínútu og var þar að verki Steinþór Þorsteinsson sem lék á þunga varnarmenn Keflavíkur og skoraði með góðu skoti án þess að Ómar kæmi vörnum við.

„Ég veit bara ekki hvað var að í þessum leik. Ég á eftir að finna út úr því,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur eftir leikinn í viðtali við Víkurfréttir.
„Blikarnir voru bara miklu einbeittari í þessum leik,“ bætti hann við.
Þínir menn voru á hælunum allan leikinn?
„Já, þetta var mjög dapurt“.
Ekki gott innlegg í toppbaráttuna. Eruð þið dottnir úr henni?
„Við duttum út úr titilbaráttunni eftir FH-leikinn. Eftir þennan leik eru tvö lið í toppbaráttunni og svo einhver pakki fyrir aftan.“
Hvernig leggst leikurinn í þig við Blika á sunnudag í bikarnum?
„Ég veit það ekki. Við þurfum að leggjast yfir hann,“ sagði Kristján dapur í leikslok.

Það er erfitt að sjá ljósa punkta í liði Keflavíkur í þessum leik. 
Enginn stóð upp úr í slöku liði og ljóst að það þarf að rífa sig upp til að fá ekki bikarskell gegn þeim grænu á sunnudaginn.

Vf-myndir: Magnús Sveinn.

 

 

 

 





Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024