Sportspjall VF - Jón Norðdal
Jón Norðdal Hafsteinsson er fæddur 1981 og byrjaði að æfa körfuknattleik níu ára gamall í Keflavík. Árgangur hans var sigursæll og unnu þeir til margra titla ár eftir ár. Hann spilaði sitt fyrsta tímabil með meistaraflokk Keflavíkur árið 1998 og á að baki yfir 300 leiki og fjöldann allan af titlum með Keflavík í úrvalsdeild og hefur spilað 30 A-landsleiki. Með leik sínum í vetur hefur hann skipað sig í sessi sem einn af bestu varnarmönnum úrvalsdeildarinnar og er skæður undir körfunni. Jón hefur átt frábært tímabil í vetur og ennþá betra í úrslitakeppninni. Víkurfréttir tóku Jón tali eftir sigurleik Keflvíkinga gegn ÍR á þriðjudag þar sem Keflvíkingar komust með sigrinum í úrslit gegn Snæfell. Liðin leika sinn fyrsta leik í úrslitum á morgun klukkan 19:15 í Sláturhúsinu í Keflavík.
Hvernig fannst þér rimmurnar við ÍR? Ég veit eiginlega ekki hvað kom fyrir í fyrsta leiknum, það gerðist ekkert í leik okkar, við hittum ekki neitt og vorum að spila eins og aumingjar. Það var kannski fínt að fá þetta kjaftshögg á þessum tímapunkti til að sýna okkur það að við þurfum að hafa fyrir þessu. Eftir það var þetta aldrei spurning.
Ertu sáttur við það sem liðið er af tímabilinu? Evrópukeppnin stendur náttúrulega uppúr og við stóðum okkur mjög vel í henni en við erum ekki búnir að vinna eins marga titla og á sama tímapunkti í fyrra. Við urðum Norðurlandameistarar í haust og deildarmeistarar, en það hefði verið gaman að landa Bikarnum og Hópbílabikarnum.
Sérðu eftir bikurunum? Auðvitað er alltaf gaman að vinna titla en ég myndi frekar velja að taka þátt í Evrópu keppninni og leggja meiri alvöru í hana heldur en bikarkeppnirnar.
Ertu sáttur við tímabilið hingað til hjá þér? Ég er mjög sáttur við það og alla strákana, það er frábær andi í liðinu. Frábært lið bara.
Þú ert alræmdur varnarmaður. Leggur þú mikið upp úr góðum varnarleik? Já það er alltaf gaman að spila vörn, við erum mikið varnarlið með Sverri innanborðs. Vörnin vinnur leiki eins og sást á þriðjudaginn. Sóknin kemur svo í kjölfarið á góðri vörn.
Nú ertu búinn að vera að glíma við meiðsli í vetur. Hvernig eru þau mál núna? Ég er eiginlega bara að bíða eftir að tímabilið klárist þá get ég farið í uppskurð á hné. Það yrði fínt ef við kláruðum þetta í þremur leikjum, þá get ég farið fyrr í uppskurð. Hnéð er búið að plaga mig mjög mikið í vetur, svo koma alltaf einhver smá meiðsli en það er hnéð sem hefur verið að valda mér hvað mestum vandræðum.
Hafa meiðslin háð þér mikið á tímabilinu? Ég æfi minna en hinir strákarnir, ég æfi aldrei 2-3 daga í röð. Ég fæ oftast tíma til að hvíla mig og mæti svo í leikina. Ég mæti hinsvegar á æfingar og er í skotæfingum úti í horni.
Hvernig leggjast úrslitin við Snæfell í þig? Við könnumst vel við þá, þeir eru með hörkulið og rúlluðu yfir Fjölni. Það verður hörku sería og væntanlega spennandi. Við ætlum að mæta á fullum krafti í það eins og síðustu þrjá leiki. Við eigum eftir að keyra mikið á þá og pressa þá vel.
Dansinn hjá þér og félaga þínum Arnari Jónssyni, er þetta eitthvað æft? Nei get ekki sagt það, þetta er svona okkar. Við höfum verið að gera þetta utan vallar, þetta er bara eitthvað til að hafa gaman af. Þetta er tileinkað hljómsveitinni Sveittir Gangaverðir, sem eru félagar okkar úr bænum og heitir dansinn „Chicken Dance”.
Hvað finnst þér um stuðningsmenn Keflavíkur? Við eigum einfaldlega langbestu stuðningsmenn landsins, það er ekkert flóknara en það. Hvað sem fólk segir um það, þá eru þetta bara alvöru stuðningsmenn. Stuðningsmenn okkar eru hreinlega sjötti maður á vellinum. Þeir eru náttúrulega frábærir strákarnir í Trommusveitinni, þeir peppa allt fólkið með sér og það munar þvílíkt um þennan stuðning og það er virkilega gaman af þessu, gerir leikinn skemmtilegri.
VF-Mynd/Þorgils: Jón Norðdal í baráttunni við Theo Dixon leikmann ÍR í 3. leik liðanna í Sláturhúsinu