Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sportspjall: Logi Gunnarsson
Miðvikudagur 28. desember 2005 kl. 16:31

Sportspjall: Logi Gunnarsson

Körfuknattleiksmaðurinn Logi Gunnarsson, leikmaður Bayreuth í suðurriðli þýsku 2. deildarinnar, er nú að ljúka 10 daga jólafríi hér á Íslandi og heldur til Þýskalands á morgun. Logi hefur verið við æfingar hjá toppliði Njarðvíkinga í jólafríinu sínu en Logi er sonur Gunnars Þorvarðarsonar, aðstoðarþjálfara Njarðvíkinga, sem gerði garðinn frægan með Njarðvíkingum hér á árum áður. Næsti leikur Bayreuth er þann 14. janúar n.k. en Logi heldur ytra á morgun til æfinga með Bayreuth sem vermir 5. sæti deildarinnar um þessar mundir.

Hvernig líst þér á stöðu Bayreuth í deildinni?
„Sjénsinn okkar á að komast upp er orðinn lítill, efsta liðið fer eitt upp og það má ekki misstíga sig mikið í þessari deild. Við höfum lent í kanavandræðum og meiðslum í ár en það er von á nýjum bandarískum leikmanni til okkar. Ulm er ósigrað í deildinni en það er raunhæft fyrir okkur að stefna á þriðja sætið í deildinni en Bayreuth lauk keppni í þriðja sæti deildarinnar í fyrra. “

Þér hefur verið að ganga vel með liðinu, á hverju byggist velgengni þín hjá Bayreuth?
„Að fá spilatíma, það hefur skipt mestu máli. Ef ég fæ spilatíma þá er ég vandur að standa mig. Körfuboltinn í Þýskalandi er mjög agaður og hjá Bayreuth er ég látinn axla jafn mikla ábyrgð sóknar- og varnarlega. Ég er vanalega látinn dekka sterkustu bakverðina í hinum liðinum, þá skotbakverðina eða leikstjórnendurna sem að jafnaði eru Bandaríkjamenn og burðarásar í sínum liðum.”

Bayreuth er í 6. sæti deildarinnar og strax eftir jólafrí mætið þið BV TU Chemnitz 99ers á útivelli. Þeir eru í 2. sæti deildarinnar, hvernig líst þér á þann leik?
,,Þetta verður erfiður leikur, við eigum von á að fá nýjan ameríkana til liðs við okkur sem á að vera mjög góður. Við höfum bara verið með einn ameríkana undanfarið í deildinni en öll lið eru með tvo. Ég spái því hins vegar að við vinnum leikinn með tveimur stigum þótt 99ers hafa ekki tapað heimaleik til þessa.”

Hvernig er venjuleg vinnuvika hjá Bayreuth liðinu?
„Við æfum alltaf tvisvar sinnum á dag og svo er einn leikur á viku. Ef það er leikur á laugardögum þá fáum við kannski frí á sunnudegi. Sem sagt, 2 æfingar á dag og ein æfing á leikdegi.“

Eru margir áhorfendur á leikjunum hjá ykkur?
„Höllin okkar er stór og flott, ein sú flottasta í deildinni og það eru tæplega 2000 manns á heimaleikjunum okkar.

En hvað gerir þú þér til afþreyingar?
„Fyrir utan körfuboltann þá ver ég tíma með kærustu minni, Birnu Björk Þorkelsdóttur, við röltum kannski niður í bæ, horfum á sjónvarpið eða lesum bækur. Það kemur stundum fyrir að við bregðum undir okkur faraldsfæti, t.d. ókum við með tengdaforeldra mína til Prag um daginn.

Hvernig gengur þér að tala þýskuna?
„Það gengur ágætlega að tala þýskuna en miður vel að skrifa hana því ég lærði aldrei þýsku hér heima. Ég er komin með ágætis tök á málinu og strákarnir í liðinu eru duglegir við að kenna mér meira en annars er enska mikið töluð hjá okkur.

Logi heldur til Þýskalands á morgun þar sem hann hefur æfingar með Bayreuth og missir því af nágrannaslag Njarðvíkinga og Keflavíkinga í Iceland Express deild karla á föstudaginn næst komandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024