Sportspjall: Logi Gunnarsson
Einn fremsti körfuknattleiksmaður Íslands, Logi Gunnarsson, var ekki lengi að bregðast við þegar Víkurfréttir nálguðust kappann og vildu taka púlsinn á honum. Logi sem leikur með Giessen 46ers í þýsku bundesligunni stendur í hörkusamkeppni hið ytra um stöðu í liðinu. Logi var mikið frá vegna meiðsla í fyrra en er nú að koma sterkur inn.
Hvernig er þér búið að ganga það sem af er tímabilinu? Ertu alheill?
Ég er alheill og öxlin er í mjög góðu standi eftir að hafa farið í aðgerð eftir síðasta tímabil, ég er kominn í topp form og hefur gengið mjög vel þegar ég hef fengið tækifæri.
Hvernig gengur liði þínu í deildinni?
Okkur gengur bara mjög vel og við erum í 6. sæti eins og er og er það mikil framför því við vorum í botninum á síðasta tímabili.
Er mikil samkeppni um stöður í liðinu, við hvernig leikmenn ert þú að keppa um spilatíma við?
Já, það er mikil samkeppni í liðinu og mikið af góðum leikmönnum sem bættust við. Það er ameríkani sem er í minni stöðu og spilar mikið og þar af leiðandi fæ ég ekki eins mikinn séns og ég mundi vilja. En það er bara eitthvað sem maður verður að takast á við og halda sínu striki.
Hvernig er körfuboltinn þarna úti frábrugðinn þeim sem spilaður er hér heima?
Ég myndi segja að það sé mikill munur enda þýska deildinn talin ein af þeim betri í Evrópu. Það eru leikmenn í toppklassa sem maður spilar við á æfingum og í leikjum og það gerir manni mjög gott að takast á við það. Vörnin hér er gríðarlega sterk og maður verður að vera fljótur að taka ákvarðanir í sókninni. Leikurinn hér er líka mjög agaður.
Ertu að spila á móti einhverjum stjörnum sem við hér heima ættum að kannast við?
Það eru margir leikmenn sem hafa verið í NBA deildinni í skamman tíma en kannski engar stórstjörnur. Það eru margir leikmenn sem koma úr góðum háskólum t.d. var miðherjinn okkar, Soleyman Wane, háskólameistari með Connecticut árið 2000. Svo spilaði ég við John Selestand um daginn sem varð NBA meistari með L.A. Lakers 2001. Svo eru margir mjög góðir Evrópskir leikmenn.
Hvað gerir þú þarna úti þegar þú ert ekki að spila eða á æfingu?
Við æfum mjög mikið, oftast 2 til 3svar á dag og ég er mikið á einstaklingsæfingum þannig að maður gerir lítið annað en að spila og æfa. Annars reyni ég að læra smá á milli æfinga, ég er með heimanám í þýsku og svo var ég í fjarnámi í fyrra.
Hvernig líst þér á Intersport-deildina í vetur? Hverjir telur þú að eigi eftir að berjast um Íslandsmeistaratitilinn?
Mér líst bara vel á deildina heima í ár og held að það verði Njaðvík ásamt Keflavík og Snæfelli sem munu berjast um titilinn ár. Og ég vona nátturlega að það verði mínir menn í Njarðvík sem standa uppi sem sigurvegarar.
Hvernig var að vera svona fjarri fjölskyldunni yfir hátíðarnar?
Það hefði verið gott að geta komist heim um hátíðarnar en við vorum að spila á milli jóla og nýárs. En svona er þetta bara ef maður er í svona vinnu og það venst bara.
Margt smátt…
Uppáhalds glæpamaðurinn: Jón bói
Uppáhalds lögreglumaðurinn: Kalli lögga
Uppáhalds friðargæsluliðinn: Þekki engan
Uppáhalds hátíðaforrétturinn: Rækjukokteill
Uppáhalds þingmaðurinn: Gunnar Örlygsson
Hvaða samkvæmisdansa kannt þú? Vals
VF-myndir/ úr safni
Efri mynd: Logi (til vinstri) ásamt félaga sínum Fannari Ólafssyni en þeir stóðu fyrir körfuboltabúðum í sumar við góðan orðstír.
Neðri mynd: Logi og Halldór Karlsson saman á góðri stund.