Sportspjall: Jóhann Þórhallsson
Jóhann Þórhallsson er markahæsti leikmaður Landsbankadeildarinnar um þessar mundir með átta mörk. Jafnan þegar Jói skorar syngja Grindvíkingar lagið um árans kjóann hann Jóhann.
Jóhann er kominn undan öflugu yngriflokkastarfi hjá Þór á Akureyri en þótti djarfur þegar hann gekk til liðs við KA á sínum tíma til þess að leika í efstu deild. Frá Akureyri kom Jóhann aðeins við í vesturbænum og lék með KR en elti félaga sína Orra og Óðinn til Grindavíkur. Jóhann er menntaður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og stefnir á mastersnám í fjármálafræði við Háskólann í Reykjavík í haust.
Hvernig kannt þú við þig í Grindavík?
Ég kann mjög vel við mig, þetta er frábær hópur og virkilega gaman að vera hérna.
Hvernig hefur Grindavíkurliðið unnið úr Kekic-málinu?
Við höfum unnið nokkuð vel út úr þessu máli, Kekic var yfirburða leikmaður hérna síðastliðin ár og slæmt fyrir klúbbinn að missa hann, reyndar er sama hvað lið hefði séð á eftir honum það hefði verið slæmt fyrir þann klúbb. Sigga og Kekic kom greinilega ekki nógu vel saman og eins og staðan var orðin var þetta kannski farsælasta lausnin svo við gætum haldið áfram að einbeita okkur að verkefnunum sem framundan eru. Kannski nauðsynlegt upp á móralinn en alltaf leiðinlegt þegar mál enda svona.
Hefur þú gert fleiri mörk í efstu deild áður?
Já, reyndar, ég gerði 10 mörk með Þórsurum á sínum tíma og maður reynir bara að slá það. Þó skiptir mestu máli að liðið fái þrjú stig, þá er ég sáttur en það er alltaf gaman að skora.
Hvert þinna marka fannst þér best í sumar?
Þó mörkin hjá mér gegn KR í 5-0 sigrinum hafi ekki verið merkileg þá finnst mér sá leikur standa upp úr. Þá gekk allt upp.
Er þetta þinn stærsti sigur í efstu deild?
Já, ég held það örugglega.
Hvert er flottasta/eftirminnilegasta markið sem þú hefur gert?
Það var gegn Leiftri þegar ég var í 1. deildinni með Þórsurum og við vorum að berjast um að taka toppsætið í 1. deildinni og ég smellhitti boltann fyrir utan teig beint upp í vinkilinn. Þetta var svona mikilvægasta markið sem ég hef gert.
Hvernig finnst þér deildin hafa verið að spilast?
Deildin er skemmtileg og leiðinleg, skemmtilegt hvað hún er jöfn en leiðinlegt hvað FH hefur stungið af. Deildin er mjög jöfn og maður þarf að vera einbeittur.
Hvaða staða myndi henta þér betur ef þú værir ekki að leika frammi?
Ég hef verið að leika fyrir aftan fremsta mann og það er eiginlega mín uppáhalds staða. Ég hef verið að rúlla úr framherja og svo í vasann fyrir aftan senterinn. Þessar stöður henta mér best.
Býr nógu mikið í Grindavíkurliðinu til þess að verða Íslandsmeistari?
Það er allt hægt og nóg af stigum í pottinum en þá þurfa FH að misstíga sig. Forskot FH er mikið en við getum vel saxað á þetta forskot og stefnum ótrauðir á Evrópusæti.
Hvað þarf til þess að verða góður sóknarmaður?
Fyrst og fremst að vera dugleg að æfa, hafa kröfurnar hæfilegar og hafa gaman af íþróttinni og reglusemi hjálpar til.
Texti og mynd: [email protected]