Sportspjall: Alma Rut Garðarsdóttir
Grindvíkingurinn Alma Rut Garðarsdóttir er fjölhæfur íþróttamaður en hún leikur knattspyrnu með GRV og körfuknattleik með Grindavík. GRV leikur í 1. deild kvenna en Grindavíkurkonur leika í úrvalsdeildinni í körfuboltanum. Alma æfir með báðum meistaraflokkunum í fótbolta og körfubolta og yngri flokkum en ásamt öllum æfingunum og keppnunum stundar hún nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Dagskráin er því þétt hjá þessari öflugu íþróttakonu sem einnig æfir með yngri landsliðum Íslands í báðum íþróttunum. Þó Alma segji að fótboltinn hafi ávallt haft forgang þá hefur henni enn ekki tekist að gera upp hug sinn um hvora íþróttina hún muni velja.
,,Ég gat ekkert æft fótbolta af viti fyrir áramót en er núna að skoða hvernig þetta verður hjá mér á nýja árinu því ég þarf jú að mæta á æfingar í fótbolta með GRV til að komast á landsliðsæfingar,” sagði Alma sem um síðustu helgi fór á U 19 ára æfingu með landsliðinu í fótbolta og mætti svo galvösk beint í bikarleik Grindavíkur og KR í körfuboltanum. ,,Það fer að koma tími til að velja á milli íþróttanna en það er bara svo erfitt. Ég er sjálf farin að setja smá pressu á mig um að velja á milli en flest heillar mig í báðum íþróttum,” sagði Alma sem er varnarmaður í fótboltanum en skotbakvörður í körfuboltanum. Á þar síðustu leiktíð steig Alma sín fyrstu skref í körfunni með meistaraflokki og átti þá ljómandi gott tímabil með Grindavík, komst í bikarúrslit þar sem liðið mátti sætta sig við ósigur gegn ÍS. Hefur hún eitthvað velt því fyrir sér að leika í úrvalsdeild í fótboltanum?
,,Ég tek næsta sumar í 1. deild með GRV og við ætlum okkur að komast upp í Landsbankadeildina á næstu leiktíð. Ef það tekst ekki verður spennandi að athuga hvort maður komist að í Landsbankadeildinni. Það er mikill hugur í starfinu hjá GRV um þessar mundir,” sagði Alma en flestir leikmenn GRV á síðustu leiktíð voru í 2. flokki og léku líka með meistaraflokki svo álagið var töluvert.
Alma sagði við Víkurfréttir að hún myndi bráðlega velja aðra hvora íþróttina og einbeita sér alfarið að henni. Hvor íþróttin það verður mun koma í ljós á næstunni en það verður sjónarsviptir af henni sama hvort hún velji fótboltann eða körfuboltann enda öflugur íþróttamaður hér á ferð.