Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sporthúsið með SportHIIT áskorun
Föstudagur 6. janúar 2023 kl. 14:51

Sporthúsið með SportHIIT áskorun

Glæsileg verðlaun í boði – sigurvegarinn metinn út frá þremur þáttum

Sporthúsið í Reykjanesbæ fagnaði 10 ára afmæli sínu sl.haust. Stöðin er komin á fullt nú í upphafi árs en það er þekkt staðreynd í líkamsræktarbransanum að stöðvarnar fyllist í byrjun janúar, eigendur Sporthússins taka öllum fagnandi en vilja að fólk stundi líkamsrækt reglulega og geri hana að nýjum lífsstíl.

Einn af hápunktum í stöðinni nú í janúar er áskorun sem gengur undir nafninu SportHIIT áskorun,  en svipuð áskorun hefur verið í gangi undanfarin ár undir nafni Superform.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Birgitta Rún Birgisdóttir, stöðvarstjóri SportHIIT og einn þjálfara Sporthússins, hefur margra ára reynslu í þjálfun: „HIIT stendur fyrir High Intensity Interval Training, en það er æfingakerfi sem byggir á lotuþjálfun/skorpuþjálfun. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá byggir æfingakerfið á ákveðnum æfingatíma með hárri ákefð, ýmist hraða eða þunga annarsvegar og svo ákveðnum hvíldartíma hinsvegar. Enginn tími er eins og getur vinnutími verið allt frá fimmtán sekúndum upp í tólf mínútur með hvíldartíma, eða frá fimmtán sekúndum upp í þrjár mínútur. Þetta æfingakerfi hentar langflestum mjög vel og hver æfing tekur í heildina ekki meira en eina klukkustund. Við erum tíu þjálfarar hjá SportHIIT, öll með mikla menntun og/eða reynslu. Þar má nefna íþróttafræðinga, IAK einkaþjálfara og styrktarþjálfara en allar æfingar fara fram undir leiðsögn þjálfara. Það er mjög vinsælt að bjóða upp á áskoranir í byrjun árs og við erum mjög stolt af þessari áskorun sem hefst mánudaginn 9.janúar og mun standa yfir næstu tólf vikurnar.“


Glæsileg verðlaun verða í boði fyrir 1. 2. og 3ja sæti í karla- og kvennaflokki, en heildarverðmæti vinninga er um 2 milljónir króna. Sigurvegarar í báðum flokkum eru metnir eftir þremur þáttum; 10% mæting (að mæta að lágmarki 3x í viku að meðaltali yfir 12 vikna tímabil), 60% ástandsmæling og 30% myndataka. Þetta síðastnefnda kemur eflaust einhverjum spánskt fyrir sjónir: „Það getur verið vand með farið að finna sigurvegara í svona keppni, þetta snýst ekki eingöngu um að missa þyngd, þú getur verið jafn þungur í lok keppninnar en með aukinn vöðvamassa og bætta líkamlega heilsu. Þess vegna kemur myndatakan sterk inn en atvinnuljósmyndari myndar keppendur fyrir og eftir keppnina. Ástandsmælingin verður með öðru sniði en þekkist áður fyrr, en nú er í fyrsta sinn notast við ástandsskanna sem mælir mun meira en þessi hefðbundna fitumæling, þyngd og ummál sem framkvæmd er af þjálfara,“ segir Birgitta.

Birgitta segir að áskorunarkeppninni sé ætlað að ná til breiðs hóps: „Við erum með viðskiptavini sem hafa æft lengi hjá okkur og bjóðum við nýja viðskiptavini að sjálfsögðu velkomna að gera líkamsrækt að nýjum og bættari lífsstíl. Viðskiptavinir okkar hafa gaman af því að taka þátt í keppni, þar sem stemningin sem myndast er alveg einstök, mikil liðsheild myndast í hópnum og hvatning í tímum.“ 


Sporthúsið reynir ávallt að vera með nýjungar og er margt spennandi framundan: „Við opnuðum nýjan sal fyrir skömmu, ég tel hann vera flottasta æfingasal landsins. Við opnunina á nýja salnum endurnýjaðist nánast allur æfingabúnaður ásamt öðrum nýjungum og því getum við nú boðið upp á fjölbreyttari æfingakerfi. Þjálfarar SportHIIT hafa, eins og áður sagði, mikla og breiða reynslu og hafa þjálfað allt frá börnum til eldri borgara í Janusar verkefninu. Við treystum okkur til að hjálpað öllum, hjá okkur æfir fólk sem er á mismunandi stað í hreyfingu, allt frá því að vera afreks íþróttafólk en einnig fólk sem glímir við ýmsa kvilla og má þar nefna sem dæmi, brjósklos og/eða önnur stoðkerfisvandamál. Allir ættu því að vera óhræddir við að koma til okkar í SportHIIT og prófa tíma. Þú þarft ekki að vera í áskorunarkeppni til að prófa því 12 vikna áskorun hentar ekki öllum. Við æfum öll á okkar eigin forsendum og því eru mjög margir viðskiptavinir okkar að æfa í SportHIIT þó þeir séu ekki skráðir í áskorun eða keppni.“   

Reglulega auglýsum við svokallaða Pop Up tíma sem hafa vakið mikla lukku og brotið upp rútínuna. Misjafnt er hvað við erum með í þeim tímum en við höfum meðal annars verið með sérstaka tæknitíma, en þar förum við yfir tækni í æfingum til að minnka áhættu á álagsmeiðslum og einnig buðum við upp á sérstakan barnatíma þar sem börnum iðkenda var boðið með á æfingu og sló það rækilega í gegn,“ segir Birgitta

Allir iðkendur SportHIIT geta fundið sér tímasetningu við hæfi til æfinga en mikið úrval tíma er alla daga vikunnar.  „Við hefjum árið með 25 tíma í boði í hverri viku. Fólk skráir sig á þann tíma sem því hentar best og þarf ekki alltaf að æfa á sama tíma dags. Ef tímarnir fyllast þá reynum við eftir fremsta megni að bæta inn tímum til að svara eftirspurn en fólk á alltaf að geta komist að í tíma hjá okkur. Þið eruð hjartanlega velkomin til okkar á HIIT æfingu og við tökum vel á móti ykkur. Við lofum öllum miklu stuði og stemningu í SportHIIT,“ segir Birgitta að lokum.