Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 24. janúar 2003 kl. 10:58

Sportari vikunnar: 14 ára í A-landslið!

Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir er 14 ára körfuboltamær úr Garðinum. Ingibjörg byrjaði að æfa körfubolta í september árið 2000. "Ég fékk áhuga á körfu því tvær vinkonur mínar æfðu körfu svo ég ákvað að prófa", sagði Ingibjörg í sportviðtali Víkurfrétta.Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún látið nokkuð til sín taka í körfunni og hefur verið fastamaður í liði Njarðvíkurstúlkna undanfarið. Þá var hún valin í landslið Íslands sem lék á Spuerkeess-mótinu í Lúxemburg milli jóla og nýárs. Þar skráði stúlkan sig í metabækurnar því hún er yngsti landsliðsmaður Íslands í hópíþrótt frá upphafi ásamt Helenu Sverrisdóttur. Í byrjun janúar lék hún svo með stúlknalandsliðinu í æfingamóti í Skotlandi og því er óhætt að segja að stúlkan sé heldur betur að standa sig.

Afhverju valdir þú að æfa með Njarðvík?
Ég hef alltaf haldið með Njarðvík í körfubolta og þar sem ekkert
körfuboltalið er í Garðinum kom ekkert annað lið til greina.
Hvað æfir þú oft í viku?
Ég æfi 9 sinnum í viku þannig að það er alltaf mjög mikið að gera hjá mér. Ég reyni alltaf að læra í hádeginu og eftir skóla og gengur ágætlega að samræma körfuna og námið.
Hvernig er venjulegur dagur í lífi þínu?
Ég fer í skólann á morgnanna og læri svo þegar ég kem heim. Eftir það er mér skutlað á æfingu. Þegar hún er búin horfi ég aðeins á sjónvarpið og fer svo að sofa.
Varstu ekki hissa á því að vera valin í landsliðið svona ung?
Jú, ég get ekki sagt annað. Ég bjóst alls ekki við því. Það var mjög gaman fara þessa ferð og góð reynsla sem á eftir að nýtast mér vel.
Hvernig gekk svo með stúlknalandsliðinu í janúar?
Það gekk bara vel. Við spiluðum fjóra leiki á móti Skotlandi, unnum tvo og töpuðum tveimur.
Hvert er framtíðartakmarkið?
Mig langar að fara út í háskóla og spila körfu með. Markmiðið er auðvitað að ná eins langt og ég get.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024