SpKef og Víðir endurnýja samstarfið
Síðastliðinn mánudag var samstarfssamningur Sparisjóðsins í Keflavík og Víðis endurnýjaður.
Í samningnum felst styrkur Sparisjóðsins til reksturs starfsemi félagsins. Sparisjóðurinn hefur verið einn öflugasti styrktaraðili félagsins í gegnum tíðina og með samningnum er það góða samstarf fest enn í sessi. Einar Jón Pálsson, formaður Knattspyrnufélagsins Víðis þakkaði Sparisjóðnum í Keflavík kærlega fyrir stuðninginn og sagði að Víðismenn myndu glaðir og stoltir halda merki Sparisjóðsins hátt á lofti.
Sparisjóðurinn opnaði afgreiðslu í Garðinum fyrir 25 árum og nýverið var opnuð ný og glæsileg afgreiðsla sem hefur verið vel tekið af Garðmönnum. Af því tilefni var ákveðið að gera sérstaklega vel við Unglingaráð Víðis og þeim færð peningagjöf. Samstarf Sparisjóðsins og Víðis verður síðan eflt enn frekar þannig að báðir aðilar njóti góðs af.
Á myndinni má sjá Baldur Guðmundsson, markaðsstjóra SpKef, Einar Jón Pálsson, formann Víðis og Margréti Lilju Valdimarsdóttur, þjónustustjóra undirrita samninginn fyrir framan nokkra af leikmönnum Víðisliðsins