Spilar körfubolta og tekur master í Englandi
Sara Rún Hinriksdóttir segir mikinn mun á körfuboltanum í Evrópu og Ameríku. Hræðileg staða á Covid-19 í Englandi og leikmenn ekki „testaðir“.
„Það er rosalega skemmtilegt að vera komin aftur til Evrópu að spila evrópskan körfubolta. Ég fann svo mikinn mun á honum, miðað við hvernig hann var í Ameríku. Deildin er mjög misjöfn hér í Englandi, efstu fjögur, fimm liðin eru miklu betri en þau sem eru fyrir neðan, þannig að leikirnir sem við spilum eru miserfiðir. Ég myndi segja að körfuboltinn á Englandi væri svipaður boltanum á Íslandi, nema kannski einu, tveimur skrefum ofar,“ segir Keflvíkingurinn Sara Rún Hinriksdóttir, mastersnemi og leikmaður með Leicester Riders í efstu deild körfuboltans á Englandi.
– Hvernig hefur þér gengið og liðinu sem þú spilar fyrir?
„Við erum ósigraðar eins og staðan er núna í ár. Í fyrra enduðum við í efstu tveimur sætunum þegar tímabilið endaði vegna Covid. Það er gaman að segja frá því að við erum komnar í úrslitaleik í annarri af tveimur bikarkeppnum ársins og áttum að spila á sunnudaginn á móti Nottingham og leikurinn sýndur á Skysport. En ein okkar fékk Covid-19, ég og allir liðsmenn því komnir í 10 daga sóttkví.
Mér persónulega hefur gengið alveg ágætlega. Ég er að vinna að mínum markmiðum jafnt og þétt. Mér finnst þjálfarinn minn, Jesper Sundberg, alveg æðislegur. Hann er mjög rólegur þjálfari sem nær svo miklu út úr sínum leikmönnunum. Hann hefur verið að hjálpa mér að vinna í mínum veikleikunum.“
– Þú talar um mikinn mun á körfubolta í Ameríku og Evrópu. Í hverju liggur hann?
„Þetta er í rauninni allt annar heimur. Í Ameríku æfðum við allt allt öðruvísi, marga klukkutíma á dag. Ég myndi segja að evrópskur körfubolti er með hærra stig af „körfubolta IQ“ en körfuboltinn í Bandaríkjunum er meira um hversu líkamlega sterkur þú ert. Í Evrópu er hugsað hvernig við getum fengið bestu körfuna sem lið, með því að spila saman og hreyfa vörnina, á meðan vestan hafs eru svo margir leikmenn sem eru svo ótrúlega líkamlega sterkir og snöggir og eiga auðvelt með að troða sér bara í gegn. Í Evrópu eru líka eldri leikmenn.“
– Þú varst valin körfuboltakona ársins á síðasta ári. Þú hefur væntanlega verið ánægð með það.
„Já, það var þvílíkur heiður að vera valin körfuknattleikskona ársins, eitthvað sem ég bjóst ekki við. Það var ýmislegt sem stóð upp úr. Ég flutti til Englands og vann mér inn stöðu hjá liðinu. Við urðum bikarmeistarar en því miður náðum við ekki að klára tímabilið í fyrra sem var frekar súrt því við vorum alveg að spila okkar besta leik. Svo er það að spila með landsliðinu alltaf eitthvað sem stendur upp úr, bæði það að spila fyrir Ísland og svo líka bara að fá að hitta stelpurnar.“
– Hvernig er staðan á Covid-19 þarna úti?
„Hún er í rauninni alveg hræðileg! Ef ég ætti að vera alveg hreinskilin þá finnst mér skrítið að við séum ennþá að spila hérna, því þar er ekkert verið að testa í þessari deild vikulega eins og verið er að gera í öðrum deildum í Evrópu. Sérstaklega eftir að nýja „gerðin“ (mutation) fór að dreifast svona hratt. Ég er búin að eyða miklum tíma í sóttkví, út af einhverri í liðinu eða einhverjum í kringum það sem er búinn að greinast með veiruna – og málið er að þegar þú ert í sóttkví hérna úti þá máttu bara alls ekki fara út úr húsi, mátt ekki einu sinni fara út að hlaupa eða út í göngu, sem er mjög leiðinlegt.“
Sara Rún býr í miðlöndum Englands, í háskólabænum Loughborough og er rétt fyrir utan borgina Leicester. Hún segir að það sé mjög gott að geta blandað saman körfubolta og mastersnámi.
„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara til Englands er sú að mig langaði augljóslega að spila körfubolta en svo var það líka að mér var boðin styrkur í meistaranám í leiðinni. Ég er sem sagt að læra master í alþjóða viðskiptum og er að útskrifast núna í sumar. Háskólinn sem ég er í heitir Loughborough University og er mjög góður, námslega séð. Ég er mjög ánægð að hafa tekið þessa ákvörðun en eftir þetta ár get ég gert það sem ég vil, vonandi spilað fyrir eitthvað gott lið í Evrópu. Ef ekki, þá hef ég alltaf háskólagráðuna mína.“
– Nú er íslenski körfuboltinn farinn af stað aftur. Ertu að fylgjast með honum?
„Já, mér finnst gaman að sjá hvað sum lið eru að gefa kvennamegin meiri athygli og vilja gera betur þar. Ég er mjög spennt að horfa á leikina,“ segir Sara Rún Hinriksdóttir.
Sara Rún nýtir tímann í mastersnám á sama tíma og hún spilar körfubolta á Englandi.
Sara Rún var lykilmaður í liði Leicester Riders sem varð bikarmeistari á síðasta ári. Hún var valin besti maður úrslitaleiksins.
„Ef ég ætti að vera alveg hreinskilin þá finnst mér skrítið að við séum ennþá að spila hérna, því þar er ekkert verið að testa í þessari deild vikulega eins og verið er að gera í öðrum deildum í Evrópu.“
Sara Rún lék með Keflavík í úrslitakeppninni 2019. Hér er hún með Bríeti Sif tvíburasystur sinni sem lék þá með Stjörnunni.
Sara Rún stundar nám í Loughborough háskólanum í miðlöndum Englands.