Spilaði fjórtán ára með meistaraflokki
Amelía Rún Fjeldsted er íþróttamaður Suðurnesjabæjar 2022
Knattspyrnukonan Amelía Rún Fjeldsted, leikmaður Bestudeildarliðs Keflavíkur, var valin íþróttamaður Suðurnesjabæjar á dögunum. Amelía spilaði sautján leiki með Keflavík í efstu deild kvenna á síðasta tímabili og skoraði í þeim tvö mörk, auk þess að spila einn leik í Mjólkurbikarnum. Amelía var valin í verkefni U19 ára landsliðs Íslands síðasta sumar og þar spilaði hún þrjá leiki og skoraði eitt mark.
Flott fyrirmynd
Amelía er virkilega flott fyrirmynd og þrátt fyrir að vera aðeins átján ára hefur hún leikið fimm tímabil í meistaraflokki en fyrsta leikinn spilaði hún árið 2018, aðeins fjórtán ára gömul. Víkurfréttir heyrðu í Amelíu og við byrjuðum á að óska henni til hamingju með valið og spurðum svo hvað væri helst á döfinni hjá henni þessa dagana.
„Takk fyrir það. Það er allt á fullu núna, skólinn að byrja, fótboltinn og svo er ég á landsliðsæfingum núna með U19. Framundan er æfingamót í Portúgal í febrúar og svo er það milliriðill EM í apríl,“ segir Amelía en hún fór í tvær ferðir síðasta sumar með U19 og hefur verið í æfingahóp síðan.
Hvernig leggst næsta tímabil í þig?
„Ég er mjög spennt fyrir því, við erum auðvitað komnar með nýjan þjálfara og breyttan leikmannahóp. Margar eru farnar, þessar erlendu, en við eigum eftir að fá fleiri leikmenn svo það er svolítið erfitt að sjá hvernig þetta verður en ég er spennt og vonandi gengur okkur vel.
Okkur hefur verið að ganga ágætlega í þeim æfingaleikjum sem við höfum verið að spila. Við unnum KH (varalið Vals) um síðustu helgi 5:1, svo erum við að spila alla laugardaga í janúar.“
Amelía segir að ýmislegt hafi breyst að undanförnu. Nýr þjálfari, -Jonathan Glenn, hefur tekið við meistaraflokki kvenna hjá Keflavík og hún hefur góða tilfinningu fyrir því sem hann er að gera. „Já, Glenn er örugglega að fara að gera góða hluti með okkur. Það sem hann er að gera virkar vel á mig. Ég stefni á að vera áfram fastamaður með Keflavík í sumar,“ segir hún en Amelía á bara eitt ár eftir af samningi sínum. „Ég ætla að halda áfram á sömu braut, ég er ekkert að plana neitt sérstakt. Bara klára þetta ár og skoða svo hvað gerist, hvað verður í boði þá.“
Útskrifast eftir þessa önn
Það er nóg að gera hjá Amelíu en auk þess að vera á fullu í fótboltanum með Keflavík og landsliðinu samhliða vinnu á leikskóla, þá stefnir hún á að útskrifast úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vor.
„Það er nú ekki mikill frítimi. Ég geri lítið annað, fer í skólann á morgnana og svo í vinnu á leikskóla í Sandgerði. Þar sem ég er að klára er ég ekkert í mörgum fögum í skólanum svo ég hef tíma fyrir vinnu. Eftir vinnu er það svo fótboltinn og þá er dagurinn bara búinn.“
Amelía hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um í hvaða nám hún ætli að halda eftir stúdentspróf en hún sé að vega og meta nokkrar hugmyndir.
„Ég er bara ekki alveg búin að ákveða hvað ég ætla að gera í framhaldinu en það fer að koma í ljós fljótlega, ég er með nokkrar hugmyndir sem ég þarf að gera upp á milli,“ segir hún. „Ég er líka búin að skoða að taka pásu eftir fjölbraut til að safna pening – en mig langar að halda áfram með námið og klára það. Ég á bara alveg eftir að ákveða þetta,“ sagði íþróttamaður Suðurnesjabæjar að lokum.